Tveir skotnir til bana í óeirðum

Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda.
Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda. AFP

Tveir létust og einn slasaðist í skotárás í óeirðum sem spruttu upp í borginni Kenosha í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum í gær. Mótmæli brutust út á sunnudag í kjölfar þess að Jacob Blake, óvopnaður svartur maður, var skotinn sjö sinnum af lögreglumanni í bakið. 

Samkvæmt BBC spruttu óeirðirnar upp þegar til átaka kom milli mótmælenda og vopnaðra manna við bensínstöð. 

Skotárásin varð um klukkan 5 í morgun samkvæmt lögreglu í Kenosha. Tveir létust og einn slasaðist alvarlega en ekki lífshættulega. Þeir sem létust hafa ekki verið nafngreindir. 

Flestir hafa mótmælt friðsamlega.
Flestir hafa mótmælt friðsamlega. AFP

Myndskeið sem deilt var á samfélagsmiðlum sýnir karlmann með skotvopn hlaupa frá hópi fólks sem eltir hann uppi áður en maðurinn fellur til jarðar og skýtur í allar áttir að hópnum. Önnur myndskeið sýna hóp þungvopnaðra hvítra karlmanna fyrir utan verslanir sem þeir segjast vera að vernda.

Flest­ir þeirra sem hafa tekið þátt í mót­mæl­un­um und­an­farið hafa mót­mælt friðsam­lega en alla þrjá dag­ana sem mótmælt hefur verið hafa fá­menn­ir hóp­ar stundað grip­deild­ir og unnið skemmd­ar­verk á lausa­mun­um og fast­eign­um. Á sunnudags- og mánudagskvöld kom svo til átaka milli mótmælenda og lögreglu. 

Móðir Blake hefur hvatt til friðsamlegra aðgerða og sagt að þær skemmdir sem hafi verið unnar séu ekki í nafni sonar hennar eða fjölskyldu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert