Uppsagnir og niðurskurður blasi við

Heilbrigðisyfirvöld í Stokkhólmi vara við því að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu sé nauðsynlegur vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins. Karólínska háskólasjúkrahúsið býr sig undir að segja upp hundruðum starfsmanna.

Þetta er í samræmi við fyrri yfirlýsingar framkvæmdastjóra heilbrigðissviðs Stokkhólmsborgar, Björns Erikssons. Fyrr á árinu sagði hann að efnahagsleg áhrif veirunnar myndu bitna á heilbrigðisþjónustu borgarinnar, ekki síst á næsta ári, á sama tíma og skatttekjur sveitarfélagsins dragast saman, atvinnuleysi eykst og það hægir á hagvexti.

Áður en kórónuveirufaraldurinn braust út höfðu yfirvöld í Stokkhólmi ákveðið að draga úr kostnaði og enn frekari niðurskurður er í undirbúningi á fjárlögum fyrir næsta ár. COVID-19 hefur sett strik í reikninginn hvað varðar fjárhag sveitarfélagsins varðar, til að mynda hafi tekjur af almenningssamgöngum dregist mikið saman vegna ráðlegginga til fólks um að vinna heima og forðast strætisvagna og lestar.

„Þetta eru miklir peningar. Þetta er spurning um milljarða sem hafa tapast í tekjur í héraðinu en við vitum ekki enn hver áhrifin verða á heilbrigðisþjónustuna,“ segir Eriksson í viðtali við TT. 

Hann segir að nú sé verið að skera niður í stjórnsýslunni en hætta sé á að það þurfi að skera niður störf annarra, svo sem í heilbrigðisgeiranum.  

Alls voru tilkynntar uppsagnir 1.150 starfsmanna Karólínska sjúkra­hússins í fyrra en Björn Zoëga er for­stjóri þess. Uppsagnirnar voru stöðvaðar tímabundið vegna kórónuveirunnar í vor en hafnar eru viðræður milli stjórnenda sjúkrahússins og stéttarfélaga að nýju. 

Eriksson vildi ekki tjá sig um stöðu sjúkrahússins í viðtali við TT en hann segir að það sé hvers sjúkrahúss að taka ákvörðun um hvernig eigi að ná fram tilskildum sparnaði. Þetta sé aftur á móti alltaf mjög erfitt og erfið ákvörðun að taka. 

Venjulega eru 90 rúm á gjörgæsludeildum sjúkrahúsa í Stokkhólmi en þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði hvað harðast var fjöldi rúma fjórfaldaður. Eriksson segir að heilbrigðisstarfsmenn hafi unnið ótrúlegt starf á þessum tíma og þeir séu hetjur. 

Spurður út í hvort grípa þurfi til uppsagna á læknum og hjúkrunarfræðingum segir hann að heilbrigðisþjónustan þurfi á þeim öllum að halda. Til lengri tíma litið sé ákjósanlegt að velja nýjar leiðir, svo sem á heimilum.

Frétt Dagens Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert