Fellibylurinn Lára er nú þriðja stigs fellibylur og mun væntanlega koma að landi í Bandaríkjunum síðar í dag. Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna varar íbúa Texas og Louisiana við hættu á flóðum og hvassviðri. Aðstæður geti orðið skelfilegar og lífshættulegar.
Fólk var flutt á brott frá ákveðnum svæðum ríkjanna tveggja í gærkvöldi og unnið er að því að byrgja glugga áður en óveðrið skellur á. Lára kostaði 25 mannslíf á eyjum í Karíbahafi.
Vindhraði Láru er nú um 40 metrar á sekúndu og er því spáð að hann muni aukast verulega næsta sólarhringinn. Má búast við því að ölduhæðin verði um fjórir metrar þegar fellibylurinn kemur að landi í kvöld.
Ríkisstjóri Texas, Greg Abbott, segir að Lára geti náð fjórða stigi fellibyls sem þýðir að vindhraðinn getur náð 70 metrum á sekúndu. Hann varar við því að gríðarlegt rok fylgi fellibylnum alls staðar í ríkinu, þar á meðal skóglendi og hætta sé á skýstrókum vegna þessa. „Við verðum að vera undirbúin,“ segir Abbott.
Miklar varúðarráðstafanir hafa verið gerðar á olíuvinnslustöðvum í Louisiana og Texas. Búið er að opna neyðarskýli í Texas þar sem sóttvarnareglum er fylgt svo kórónuveiran fari ekki á frekara flug en þegar er.
Að sögn Abbott verður COVID-19-faraldurinn í gangi allt fellibyljatímabilið sem gerir allar varúðarráðstafanir erfiðari en annars væri. Hann hvetur fjölskyldur sem hafa ráð á því að koma sér í sóttkvíarskjól á hótelum eða mótelum í stað neyðarskýla.
Í New Orleans hvatti La Toya Cantrell borgarstjóri íbúa til að virða sóttvarnareglur þrátt fyrir hættuna sem fylgi Láru, svo sem rok, rigningu og flóð.
Í franska hluta borgarinnar er búið að dreifa sandpokum og byrgja glugga. Ferðamenn sjást ekki þar lengur enda fellibylur og COVID-19 ekki eftirsóknarverð blanda fyrir ferðalanga.
Íbúar New Orleans hugsa með hryllingi til fellibyljarins Katrínar sem herjaði á borgina fyrir 15 árum. Katrín var þriðja stigs fellibylur en afleiðingar hennar voru skelfilegar. Um 80% af borginni fór undir vatn og yfir 1.800 manns létust.
Talið er að fellibyljatímabilið verði eitt það erfiðasta hingað til en spáð er komu 25 nafngreindra fellibylja á Atlantshafinu í ár. Lára er númer 12 en tímabilinu lýkur í lok nóvember.