Skylda verður að bera grímu allsstaðar í París og 21 hérað er skilgreint sem rautt áhættusvæði samkvæmt nýjum reglum sem forsætisráðherra Frakklands, Jean Castex, kynnti í dag. Ekki hefur verið upplýst um hvenær nýjar reglur taka gildi.
Áður var skylda að bera grímur í ákveðnum hlutum Parísar en nú skiptir ekki máli hver gatan er – öllum er gert að bera grímu þegar farið er út úr húsi. Jafnframt er grímuskylda á vinnustöðum alls staðar í Frakklandi. Eins er verið að skoða hvort stækka eigi hringinn utan um höfuðborgina hvað varðar grímuskyldu þannig að hún nái til þeirra sem búa úthverfum, það er utan við hringveginn (peripherique) sem umlykur borgina.
Fyrr í vikunni var gert að skyldu að bera grímu utandyra í næst stærstu borg Frakklands, Marseille og hefur borgarstjórinn,Michèle Rubirola, tilkynnt að hálfri milljón gríma verði dreift til allra nemenda á mið- og unglingastigi sem og menntaskólum. Jafnframt fær fólk sem þiggur greiðslur úr félagslega kerfinu fríar grímur.
Olivier Véran heilbrigðisráðherra heitir því að setja aukinn kraft í COVID-19 sýnatökur og er stefnt að því að á fyrstu viku septembermánaðar verði því marki náð að taka milljón sýni á einni viku. Markmiðið er að allir þeir sem þurfi og vilji geti farið í sýnatöku.
Jean Castex segir að nú hafi 19 héruðum verið bætt á rauða rauða listann en áður voru tvö héruð á listanum. Þetta þýðir að 21 af 94 héruðum Frakklands er skilgreint áhættusvæði.
Í gær var greint frá því að rúmlega 5.400 ný smit hafi verið staðfest á miðvikudag og að eins sé innlögnum á sjúkrahús sem og á gjörgæsludeildir þeirra að fjölga.
Á blaðamannafundi í dag sagði Castex að það sé óvefengjanleg staðreynd að smitum fjölgi hratt í Frakklandi. Nú séu 39 ný smit á hverja 100 þúsund íbúa sem er fjórum sinnum fleiri en fyrir mánuði síðan. Fjölgun smita sé í öllum aldurshópum. Hlutfall jákvæðra sýna af fjölda sýna var 1% í maí en er 3,7% í dag.
Nú eru í hverri viku 800 sjúklingar með COVID-19 lagðir inn á sjúkrahús en fyrir sex vikum voru þeir 500 talsins.
Castex segir að farsóttin sé að sækja í sig veðrið og það sé orðið tímabært að bregðast við. Hvetur hann fólk til að virða sóttvarnareglur og gæta ýtrustu varúðar, svo sem þvo hendur, tveggja metra fjarlægðarmörk og ganga með grímu.