Einn látinn vegna Láru

Eyðileggingin blasir við.
Eyðileggingin blasir við. AFP

Þök fuku af byggingum og rúður sprungu þegar fellibylurinn Lára kom að landi í Louisi­anaríki. Að minnsta kosti einn er látinn í veðurofsanum en Lára hefur verið flokkuð sem fjórða stigs fellibylur.

Veðurspár vara við áframhaldandi lífshættulegum stormi í ríkinu.

Á myndbandsupptökum má sjá illa leiknar byggingar í strand­borg­inni Lake Char­les en þar má einnig sjá tré sem hafa rifnað upp með rótum og umferðarskilti sem fuku sína leið.

Rúmlega hálf milljón manna var án rafmagns í Louisiana og nágrannaríkinu Texas fyrr í dag. 

„Haldið ykkur heima og hlustið á ráðleggingar sérfræðinga,“ skrifaði John Bel Edwars, ríkisstjóri Louisiana, á Twitter.

Hann sagði MSNBC-fréttastofunni að stúlka hefði látist þegar tré féll á heimili hennar í bænum Leesville í Louisiana.

Fram kom í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu að Donald Trump Bandaríkjaforseti myndi veita alla þá aðstoð sem þyrfti vegna Láru.

Rík­is­stjóri Texas, Greg Ab­bot, seg­ir að kraft­ur Láru sé for­dæma­laus þegar kem­ur að fellibyljum í rík­inu og hvet­ur íbúa til að forða sér und­an ógn­ar­mætti henn­ar. „Það er hægt að end­ur­nýja eign­ir en ekki líf,“ seg­ir Ab­bott.

Vara­for­seti Banda­ríkj­anna, Mike Pence, hvet­ur íbúa á þeim svæðum þar sem Lára fer yfir til að fara í einu og öllu að fyr­ir­mæl­um rík­is- og sveit­ar­stjórna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert