Þök fuku af byggingum og rúður sprungu þegar fellibylurinn Lára kom að landi í Louisianaríki. Að minnsta kosti einn er látinn í veðurofsanum en Lára hefur verið flokkuð sem fjórða stigs fellibylur.
Veðurspár vara við áframhaldandi lífshættulegum stormi í ríkinu.
Á myndbandsupptökum má sjá illa leiknar byggingar í strandborginni Lake Charles en þar má einnig sjá tré sem hafa rifnað upp með rótum og umferðarskilti sem fuku sína leið.
Rúmlega hálf milljón manna var án rafmagns í Louisiana og nágrannaríkinu Texas fyrr í dag.
„Haldið ykkur heima og hlustið á ráðleggingar sérfræðinga,“ skrifaði John Bel Edwars, ríkisstjóri Louisiana, á Twitter.
Hann sagði MSNBC-fréttastofunni að stúlka hefði látist þegar tré féll á heimili hennar í bænum Leesville í Louisiana.
Fram kom í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu að Donald Trump Bandaríkjaforseti myndi veita alla þá aðstoð sem þyrfti vegna Láru.
Ríkisstjóri Texas, Greg Abbot, segir að kraftur Láru sé fordæmalaus þegar kemur að fellibyljum í ríkinu og hvetur íbúa til að forða sér undan ógnarmætti hennar. „Það er hægt að endurnýja eignir en ekki líf,“ segir Abbott.
Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, hvetur íbúa á þeim svæðum þar sem Lára fer yfir til að fara í einu og öllu að fyrirmælum ríkis- og sveitarstjórna.