Fellibyljatímabilið að ná hámarki

Lára kom að landi í Louisiana-ríki klukkan sex í morgun …
Lára kom að landi í Louisiana-ríki klukkan sex í morgun að íslenskum tíma. AFP

„Fellibyljatímabilið er að ná hámarki á þessu svæði. Það eiga eftir að koma fleiri fellibylir, það er alveg líklegt,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um fellibylinn Láru sem kom að landi í Louisi­ana-ríki í nótt.

Lára hefur verið flokkuð sem fjórða stigs fellibylur og í morgun náði vindhraði 67 metrum á sekúndu. „Þetta er mjög öflugur fellibylur,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.

„Þeir eru oft mjög öflugir þegar þeir koma að landi, svo koðna þeir niður þegar þeir koma inn á landið. Þeir eru oft hættulegir í nokkra daga á eftir, en þeir vaxa ekki lengur.“

Samkvæmt spá bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar, National Hurricane Center (NHC), mun Lára halda áfram norður yfir Louisiana-ríki og svo austur út á haf. Líklegt sé að fellibylurinn verði þá orðinn að djúpri lægð.

„Þetta þekur allt fylki Louisiana, sem er frekar lítið fylki, en líka austurhluta Texas sem er inni á þessu áhættusvæði,“ segir Þorsteinn.

AFP

Lægðin stafi ekki af Láru

Fellibylir sem þessir geta haft áhrif á verður á Íslandi, en Þorsteinn telur ólíklegt að Lára muni valda lægð hér á landi. Spáð er að lægð komi yfir landið á sunnudaginn, en Þorsteinn telur að hún stafi ekki af Láru.

„Þetta er dæmigerð lægð sem átti upptök við Nýfundnaland, eins og þær eiga flestar sem koma úr suðvestri.“

Þorsteinn segir að spáð sé nokkuð miklum lægðargangi á landinu næstu viku. Veðrið síðustu daga hafi verið afar rólegt, en nú sjái fyrir endann á því.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert