Að minnsta kosti fjórir hafa látist þegar tré féllu á heimili fólks þar sem fellibylurinn Lára veldur mikilli eyðileggingu í Louisina-ríki í Bandaríkjunum.
Veðurspár vara við áframhaldandi lífshættulegum stormi í ríkinu.
Heldur hefur dregið úr vindstyrknum og nú þegar Lára nálgast Arkansas-ríki er „einungis“ um hitabeltisstorm að ræða, ekki fellibyl.
Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því fyrr í dag að hann ætlaði að koma til Louisiana um helgina og sjá svæðið sem verst hefur orðið úti.
Lára og hitabeltisstormurinn Marco urðu 24 að bana á eyjum í karabíska hafinu um síðustu helgi.
John Bel Edwards, ríkisstjóri Louisiana, staðfesti á blaðamannafundi síðdegis að fjórir hefðu látist í ríkinu vegna ofsaveðursins. Allir létust þegar tré féllu á heimili fólks.
Edwards óttast að fleiri eigi eftir að finnast látnir en sagðist vona það besta.