Hefja bráðabirgðarannsókn á veikindum Navalnís

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP

Rússneska lögreglan hefur hafið bráðabirgðarannsókn á veikindum stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís eftir að stjórnvöld í Rússlandi höfnuðu niðurstöðu þýskra lækna um að eitrað hefði verið fyrir honum.

Rússneskir saksóknarar hafa óskað formlega eftir því að fá læknaskýrslur Navalnís afhentar. 

Lögreglan í Síberíu greindi frá þessu í dag og beinist athugunin að því hvað varð til þess að leggja þurfti Navalní inn á sjúkrahús í Omsk fyrir viku. Allar hliðar málsins verði skoðaðar og síðan verði tekin ákvörðun um hvort hefja eigi sakamálarannsókn.

Navalní veiktist um borð í flugvél á leið til Moskvu frá borginni Tomsk í Síberíu á fimmtudag og var lent með hann í Omsk og hann lagður inn á gjörgæsludeild sjúkrahúss borgarinnar. Navalní, sem er 44 ára gamall, var meðvitundarlaus þegar þangað var komið. Hann var síðan fluttur til Berlínar um helgina og þar hafa læknar staðfest það sem ættingjar og vinir stjórnmálamannsins hafa sagt – að eitrað hafi verið fyrir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert