Læknirinn í Noregi sagði upp

Ein margra ískyggilegra mynda af vinnubrögðum bæklunarlæknisins sem starfaði sem …
Ein margra ískyggilegra mynda af vinnubrögðum bæklunarlæknisins sem starfaði sem slíkur í ellefu ár á Sørlandet-sjúkrahúsinu í Flekkefjord án þess að hafa nokkurn tímann öðlast réttindi til slíkra starfa. Röntgenmynd/Sørlandet-sjúkrahúsið

Réttindalaus bæklunarskurðlæknir frá Kasakstan, sem starfaði í ellefu ár við Sørlandet-sjúkrahúsið í Flekkefjord og síðar Kristiansand í Noregi, og sætir rannsókn vegna tuga alvarlegra mistaka, sem sum hver leiddu til andláts alls þriggja sjúklinga hans, hefur sagt starfi sínu lausu, en honum var gert að sæta leyfi eftir að handvömm hans komst í hámæli snemma á árinu, en þar var meðal annars um að ræða aðgerð sem læknirinn hefði aldrei átt að fá að framkvæma einn síns liðs á úlnlið Margrétar Annie Guðbergsdóttur sem sagði mbl.is frá máli sínu í febrúar.

Læknirinn og Sørlandet-sjúkrahúsið sæta nú formlegri rannsókn heilbrigðisyfirvalda vegna tíu mála í tengslum við alvarlegt líkamstjón sjúklinga í kjölfar aðgerða sem umræddur læknir hefði aldrei átt að fá að framkvæma án eftirlits, enda þá á fyrsta ári af sex í sérnámi til að fá að starfa sem bæklunarskurðlæknir í Noregi. 

Samkvæmt norskum reglum ætti læknirinn, í kjölfar uppsagnar sinnar á Sørlandet-sjúkrahúsinu, að geta sótt um önnur störf innan norsks heilbrigðiskerfis þrátt fyrir að sæta rannsókn vegna starfa sinna við bæklunarskurðlækningar.

Sørlandet-sjúkrahúsið í Kristiansand játaði í febrúar að alvarleg mistök hefðu …
Sørlandet-sjúkrahúsið í Kristiansand játaði í febrúar að alvarleg mistök hefðu átt sér stað þegar réttindalaus læknir skar Margréti Annie Guðbergsdóttur upp eftirlitslaus seint á föstudagskvöldi í fyrrasumar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Carsten R.D.

Í kjölfar umfjöllunar norska ríkisútvarpsins NRK um málið á þriðjudag tóku norsk heilbrigðisyfirvöld hins vegar við sér og kveðast nú íhuga að svipta lækninn leyfi til að stunda lækningar í Noregi.

„Málið lítur öðruvísi út nú þegar læknirinn gegnir ekki formlegri stöðu lengur. Við metum það nú hvort ástæða sé til að svipta hann lækningaleyfi,“ segir Toril Sagen, fagstjóri norska heilbrigðiseftirlitsins (Helsetilsynet), við NRK.

Getur sú svipting verið til sex eða tólf mánaða í einu en læknirinn neitar sök í öllum málunum sem til rannsóknar eru. Í sjö þeirra leikur grunur á að brotið hafi verið gegn norskri heilbrigðislöggjöf.

„Þetta veldur mér áhyggjum og ætti að valda almenningi áhyggjum,“ segir Åshild Bruun-Gundersen, þingmaður Framfaraflokksins, sem telur að rannsókn á alvarlegum lögbrotum ætti ein og sér að leiða til leyfissviptingar. Tók þingmaðurinn mál læknisins upp á Stórþinginu í vor og skoraði þar á Bent Høie heilbrigðisráðherra að búa svo um hnútana að læknar gætu ekki haldið áfram á sömu braut eftir ítrekuð mistök við aðgerðir.

Ökklabroti Finn Åge Olsen lyktaði með því að taka þurfti …
Ökklabroti Finn Åge Olsen lyktaði með því að taka þurfti af honum hægri fótlegg við hné eftir alvarleg mistök skurðlæknisins. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hafa stjórnendur Sørlandet-sjúkrahússins legið undir þungu ámæli fyrir að færa lækni, sem starfað hafði réttindalaus við skurðlækningar í ellefu ár, af einu sjúkrahúsi yfir á annað þegar kvartanirnar hrönnuðust upp í Flekkefjord en þá tók hann til starfa í Kristiansand þar sem Margrét Annie gekkst undir aðgerðina örlagaríku hjá honum.

Nina Mevold, forstjóri Sørlandet-sjúkrahússins, hefur lítið viljað tjá sig um mál læknisins við fjölmiðla en sagðist í febrúar óska eftir góðu og opnu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld. Í gær sagði hún við NRK að hún og stjórnin lytu þeim niðurstöðum sem vænta mætti frá heilbrigðisyfirvöldum ríkis og fylkis í kjölfar rannsóknar málanna.

NRK

NRKII (íhuga leyfissviptingu)

NRKIII (rætt við Finn Åge Olsen sem missti fótinn)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert