Þjóðverjar herða sóttvarnareglur

AFP

Kanslari Þýskaland, Angela Merkel, hefur samþykkt ásamt sambandsríkjunum að herða sóttvarnareglur í landinu til að hefta frekari útbreiðslu smita. AFP-fréttastofan greinir frá þessu en ekki er búið að greina frá þessu opinberlega.

Meðal annars verður fólk sektað ef það virðir ekki reglur um notkun gríma og hljóða sektir upp á 50 evrur að lágmarki. Jafnframt mega að hámarki 25 manns koma saman í einkasamkvæmum. 

Áhorfendur verða bannaðir á íþróttakappleikjum út árið hið minnsta og eftirlit verður aukið með að sóttvarnareglum sé fylgt.

Forsætisráðherra Frakklands, Jean Castex, hvetur fólk til að sýna ábyrgð, svo hægt sé að koma í veg fyrir frekari dreifingu kórónuveirunnar, með því að nota grímur á almannafæri og vernda þannig aðra. Ekki sé hægt að útiloka að útgöngubann verði sett á að nýju. 

Skylda er að bera grímur á öllum vinnustöðum í Frakklandi, á opinberum stöðum og í almenningssamgöngum. Castex hvetur fólk til þess að hugsa um aðra en sjálfa sig. „Í öllum fjölskyldum er eldra fólk og viðkvæmt. Fólk telur sig ósigrandi og telur að það þurfi ekki á grímu að halda,“ segir Castex og höfðar til ábyrgðarkenndar íbúa landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert