Fellibylurinn Lára er kominn að landi í Louisiana-ríki og samkvæmt upplýsingum frá Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna er Lára gífurlega hættulegur fellibylur sem ógnar lífi fjölmargra.
Lára er nú fjórða stigs fellibylur en vindhraði hennar nú eru 67 metrar á sekúndu. Sjóferðir eru lífshættulegar og hefur hundruðum þúsunda íbúa í Louisiana og Texas verið gert að yfirgefa heimili sín.
Í fréttum bandarískra sjónvarpsstöðva má sjá úrhelli berja á strandborginni Lake Charles skömmu eftir að Lára kom að landi klukkan 1 í nótt að staðartíma, klukkan 6 að morgni að íslenskum tíma.
Hætta er á að ölduhæðin nái um sex metrum á strönd ríkjanna tveggja og skýstrókar myndist inni í landi vegna öfganna í veðurkerfinu.
Ríkisstjóri Texas, Greg Abbot, segir að kraftur Láru sé fordæmalaus þegar kemur að fellibyljum í ríkinu og hvetur íbúa til að forða sér undan ógnarmætti hennar. „Það er hægt að endurnýja eignir en ekki líf,“ segir Abbott.
Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, hvetur íbúa á þeim svæðum þar sem Lára fer yfir til að fara í einu og öllu að fyrirmælum ríkis og sveitarstjórna.
Yfir eitt þúsund þjóðvarðliðar hafa verið sendir til Texas til að aðstoða íbúa. Jafnframt hefur ýmiss konar neyðarbúnaður verið sendur þangað og starfsfólk til að aðstoða í neyðarskýlum.
Meðal borga þar sem íbúarnir hafa verið hvattir til að forða sér eru Beaumont og Port Arthur í Texas en borgirnar urðu illa úti þegar fellibylurinn Harvey reið þar yfir fyrir þremur árum.