Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, ætlar að segja af sér af heilsufarsástæðum. Abe tilkynnti þetta á neyðarfundi með flokksfélögum sínum í Frjálslynda lýðræðisflokknum í dag en ekki liggur fyrir hver geti tekið við keflinu.
Þingkona flokksins og náin samstarfskona Abes, Tomomi Inada, staðfesti þetta við fréttamenn fyrir skömmu. „Ég hef heyrt af áætlun hans. Þetta gerist skyndilega og óvænt. Ég er orðlaus,“ segir hún. Fleiri þingmenn staðfesta þetta í samtali við fjölmiðla.
Blaðamannafundur Abes hófst klukkan átta að íslenskum tíma en fregnir af afsögn láku út fyrr í dag. Hlutabréfavísitalan lækkaði um meira en 2% í kjölfarið.
Inada segir að Abe ætli að gegna embætti forsætisráðherra þangað til arftaki hans hefur verið valinn. Talið er að boðað verði til kosninga fljótlega.
Abe sagði á fundi með blaðamönnum að hann hefði ákveðið að stíga til hliðar sem forsætisráðherra vegna sáraristilbólgu sem hefur tekið sig upp aftur. Abe sagði af sér embætti á sínum tíma vegna sömu veikinda. Það var árið 2007, á fyrsta kjörtímabili hans í embætti forsætisráðherra.