Beðið eftir afsögn Abe

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. AFP

Fréttir af fyrirhugaðri afsögn forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, hafa haft mikil áhrif á fjármálamarkaði í Japan í dag en þess er vænst að hann segi af sér síðar í dag af heilsufarsástæðum.

Japanska ríkissjónvarpið greindi frá því fyrr í dag að Abe ætli að segja af sér vegna versnandi heilsu og hann hafi áhyggjur af að það geti haft slæm áhrif á störf hans. 

Undanfarnar vikur hefur verið uppi orðrómur um heilsufar forsætisráðherrans og hefur sá orðrómur færst í aukana undanfarna daga. Abe hefur í tvígang leitað á sjúkrahús síðustu daga en ekki hefur verið upplýst um hvað hrjáir hann. 

Forsætisráðherrann hefur boðað blaðamenn á sinn fund klukkan 17, sem er klukkan 8 að íslenskum tíma. NHK og fleiri fjölmiðlar segja að þar muni hann útskýra veikindi sín og afsögn.

Abe fór í þriggja daga sumarleyfi í ágúst og 17. ágúst fór hann á sjúkrahús þar sem hann dvaldi í sjö klukkustundir. Síðar í sömu viku fór hann einnig í frekari læknisrannsóknir á sjúkrahúsinu. Í kjölfarið lýsti hann því yfir að hann ætlaði ekki að segja af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert