Óeirðir brutust út í Rosengård-hverfinu í sænsku borginni í Malmö í kvöld þar sem því var mótmælt að kveikt var í eintökum af kóraninum í Malmö fyrr í dag.
Félagar í danska öfgaflokknum Stram Kurs eru taldir bera ábyrgð á brennunum.
Talið er að um 300 manns hafi komið saman á nokkrum stöðum í Rosengård, samkvæmt frétt sænska ríkissjónvarpsins. Bíldekk hafa verið brennd, grjóti kastað í lögreglu og kveikt í flugeldum.
Rickard Lundqvist, talsmaður lögreglunnar í Malmö, sagði í samtali við Aftonbladet að lögregla hefði fyrst um sinn haft stjórn á hlutunum. Nú væri þetta að þróast í ofbeldisfullar óeirðir.