Verið er að skoða möguleikann á því hjá Evrópusambandinu að höfða mál gegn Kýpur vegna frétta af kaupum glæpamanna og fólks sem sætir alþjóðlegum refsiaðgerðum á kýpverskum vegabréfum. Didier Reynders, sem fer með dómsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, staðfestir þetta í samtali við Al Jazeera.
Reynders hvetur til breytinga á reglum ESB sem heimila sölu á ríkisborgararéttindum og hann segist vilja að slík sala heyri sögunni til.
Teymi blaðamanna hjá Al Jazeera birti nýverið fréttaskýringar sem nefnast Kýpur-skjölin, The Cyprus Papers. Þar eru birt gögn sem lekið var til fréttastofunnar sem sýna fram á að Kýpur hefur selt glæpamönnum, fólki sem er á flótta undan réttvísinni og fólki sem er talið að tengjast spillingu, vegabréf.
Gögnin, sem var lekið til Al Jazeera, snerta tæplega 1.500 vegabréfsumsóknir með yfir 2.400 nöfnum þar sem sést að yfirvöld á Kýpur létu hjá liggja að gera áreiðanleikakönnun í tugum tilvika sem þýddi að glæpamenn gátu keypt ríkisborgararétt í ríki sem á aðild að ESB með öllu því sem fylgir ríkisborgararéttindum í ríkjum ESB. Meðal annars hafi 500 Kínverjar og yfir 350 Arabar keypt sér kýpversk vegabréf og fengið með þeim aðgengi að réttindum sem fylgja ESB.
Segir á vef Al Jazeera að ef þú ert í hópi þeirra sem geta reitt fram 2,5 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 346 milljóna króna, til að kaupa vegabréf til Evrópu þá ert þú sennilega á einhverjum lista yfir auðmenn. Ríkisborgararéttur sem gefur þér tækifæri til að búa hvar sem er á ESB-svæðinu – allt frá Mílanó til Monte Carlo.
Reynders segir í samtali við Al Jazeera að hann hafi óskað eftir því við lagaskrifstofu sviðsins að skilgreina hvort hægt sé að gera þar breytingar á. Aftur á móti sé ábyrgðin að mestu hjá Kýpur og spurning um hvort sé að afturkalla einhverja þeirra ákvarðana sem þegar hafa verið teknar varðandi veitingu ríkisborgararéttar.
Í svari stjórnvalda á Kýpur við fyrirspurn Al Jazeera í kjölfar Kýpur skjalanna kemur fram að þau líti ekki á þetta sem blaðamennsku heldur áróður. Verið sé að reyna, vísvitandi, að falsa upplýsingar og skjöl. Rannsókn standi yfir á því hver hafi lekið gögnunum í blaðamenn Al Jazeera.
Fréttaskýringar Al Jazeera Kýpur skjölin eru unnar af teymi rannsóknarblaðamanna hjá Al Jazeera. Meðal fleiri greinaflokka undir sama hatti eru Namibíu skjölin.
Í nóvember greindi ríkisstjórn Kýpur frá því að hún ætlaði að ógilda „gullvegabréf“ sem 26 ríkir erlendir fjárfestar og fjölskyldur þeirra, sem eru búsettir utan ESB, höfðu keypt af kýpverskum stjórnvöldum.
Innanríkisráðherra Kýpur, Constantinos Petrides, nafngreindi ekki viðkomandi en samkvæmt fréttum frá þeim tíma voru níu Rússar þar á meðal, 8 frá Kambódíu og fimm Kínverjar. Þá kom fram að ESB taldi að um fjársvikamyllu væri jafnvel að ræða.
Kýpur hefur boðið upp á gullvegabréf gegn fjárfestinga í landinu fyrir að minnsta kosti tvær milljónir evra og bæði Malta og Búlgaría hafa farið svipaða leið. Bretland er, samkvæmt BBC, eitt þeirra ríkja sem hefur selt vegabréf í gegnum slíka fjárfestingasamninga.
Í janúar í fyrra fór ESB fram á það við aðildarríkin að þau myndu herða eftirlit með fólki sem er frá löndum utan ESB sem reynir að kaupa sér ESB-vegabréf í gegnum fjárfestingasamninga. Hafa leiðtogar ESB áhyggjur af því að með þessum hætti séu félagar í skipulögðum glæpasamtökum eða embættismenn að stunda peningaþvætti á háum fjárhæðum eða skattaundanskot.