Tugir þúsunda eru samankomnir við sigursúluna í Tiergarten í Berlín til þess að mótmæla kórónuveiruaðgerðum stjórnvalda. Í morgun voru mótmæli leyst upp í miðbæ Berlínar þar sem lögregla taldi sýnt að ekki væri verið að fylgja sóttvarnareglum.
Þrátt fyrir ákall lögreglu um að virða sóttvarnatilmæli og sleppa því að mótmæla, og þrátt fyrir að hluti mótmælanna hafi verið stöðvaður af þessum sökum, er enn gríðarlegur fjöldi fólks á götum úti. Í það minnsta 20.000-30.000, samkvæmt þýskum miðlum.
Um 2.000 manns söfnuðust saman fyrir utan rússneska sendiráðið í borginni og kom þar til átaka á milli lögreglu og mótmælenda. Hópur fólks var handtekinn og þar á meðal var Attila Hildmann nokkur, sem er frægur fyrir að dreifa samsæriskenningum á netinu.
Þýsk yfirvöld hafa farið fram og til baka með það í vikunni hvort mótmæli séu leyfileg. Það vakti mikla athygli á miðvikudaginn þegar lögregluyfirvöld tilkynntu að fyrirhuguð mótmæli, sem sagt þessi í dag, yrðu ekki leyfð. Dómstólar kváðu þó á seinustu stundu upp úrskurð um að þau yrðu að vera leyfð.
Þá var það mjög umdeilt að Andreas Geisel, öldungadeildarþingmaður fyrir Berlín, skyldi rökstyðja mótmælabannið á grundvelli þess sem kæmi fram í málflutningi mótmælendanna, en ekki einvörðungu á grundvelli sóttvarnasjónarmiða. Sú deila er þó að hluta til úr sögunni, þar sem ljóst er að leyfa þurfti mótmælin.
Þeir sem mótmæla gera það af ýmsum ástæðum og er það fjölbreyttur hópur sem sameinast þar um óánægju með stjórnvöld. Önnur málefni blandast í umræðuna, svo sem umræður um skaðsemi bólusetninga, ítök Bills Gates og uppsetningu 5G-senda.
Svipuð mótmæli, þó ekki eins fjölmenn, áttu sér stað í París og London í dag.