Einn var skotinn til bana í átökum milli tveggja hópa í Portland í Oregon í gærkvöldi. Um var að ræða stuðningsmenn Donalds Trumps annars vegar og mótmælendur úr hópi Black Lives Matter hins vegar. Ekki hefur verið upplýst hver fórnarlambið er en samkvæmt myndum virðist sem um hvítan mann sé að ræða. Að sögn lögreglu er morðrannsókn hafin.
Allt frá því að lögregla drap George Floyd í Minnesota í lok maí hefur verið mótmælt nánast daglega í Portland. Í gær ákváðu stuðningsmenn Trumps að fylkja liði og keyra í bílalest í gegnum borgina. Nokkur hundruð bílar voru í lestinni.
Að sögn lögreglu lenti hópunum tveimur saman og klukkan 20:45 að staðartíma heyrðust skothvellir í miðborginni að sögn lögreglu en nokkru áður höfðu brotist út slagsmál og illdeilur á milli hópanna. Þegar lögregla kom á vettvang fann hún mann látinn eftir að hafa verið skotinn í brjóstið.