Einn vinsælasti ferðamannastaður Brasilíu, afskekkti eyjaklasinn Fernando de Noronha, hefur ákveðið að hleypa ferðamönnum aftur á eyjurnar. Eina skilyrðið er að þeir verða að hafa fengið kórónuveiruna og náð fullum bata.
Ferðamenn hafa verið bannaðir frá eyjunum, sem eru á heimsminjaskrá UNESCO, frá því seint í mars þegar útgöngubann tók gildi víða í Brasilíu.
Síðan þá hafa um 120 þúsund Brasilíumenn látið lífið af völdum kórónuveirunnar og Jair Bolsonaro, forseti landsins, verið harðlega gagnrýndur fyrir að gera lítið úr hættunni.
Frá og með þriðjudeginum eru ferðamenn aftur velkomnir á Fernando de Noronha, um 350 kílómetra frá strönd Brasilíu, ef þeir geta sannað að þeir hafi fengið kórónuveiruna og náð bata.