Stóraukin löggæsla setti svip sinn á mótmæli í Hvíta-Rússlandi í dag að sögn fréttamanns BBC á staðnum og hafa í það minnsta 140 mótmælendur verið handteknir samkvæmt tölum frá innanríkisráðuneytinu þar í landi.
Tugþúsundir Hvít-Rússa fylktu liði um götur Minsk í dag og mótmæltu endurkjöri Alexanders Lúkasjenkós í embætti forseta, með fána stjórnarandstöðunnar í hendi, kallandi „farðu“. Það sem var ólíkt með mótmælunum í dag og mótmælum síðustu sunnudaga var sýnileiki lögreglunnar; fjöldi sérsveitarmanna, sem stóðu andspænis mótmælendum og færðu sig nær og nær, niður götuna. Þá var nokkuð um handtökur sem framkvæmdar voru af óeinkennisklæddum lögreglumönnum.
Lúkasjenkó fagnar 66 ára afmæli í dag og hringdi Vladimír Pútín Rússlandsforseti í hann af því tilefni, sendi honum heillaóskir í tilefni dagsins og bauð honum í heimsókn til Moskvu. Ekki kenndi sömu grasa meðal mótmælenda sem heyrðust hrópa: „Til hamingju með daginn, rottan þín.“
Heimboðið lætur nokkuð vel í ljós stuðning rússneskra stjórnvalda við Lúkasjenkó, sem setið hefur í embætti í 26 ár og neitar því alfarið að um kosningasvindl hafi verið að ræða þegar hann hlaut 80,10% fylgi 9. ágúst síðastliðinn.