Þýska fréttatímaritið Der Spiegel telur sig hafa fundið þjóf sem leitað hefur verið í rúm fjörutíu ár, manninn á bak við frægan listaverkastuld í gamla Austur-Þýskalandi árið 1979, þegar fimm verðmæt málverk hurfu úr Friedenstein-höllinni í Gotha í Þýringalandi eina kalda desembernótt.
Málverkin, meðal annars eftir hinn hollenska Frans Hals og þýska Hans Holbein, skutu upp kollinum í fyrra og var skilað til hallarinnar án þess að því fylgdu skýringar á því hver hefði stolið þeim.
Eftir ítarlega rannsókn segir í nýjasta tölublaði Spiegel að öll bönd berist að lestarstjóranum Rudi Bernhardt, sem lést árið 2016. Hann á að hafa stolið málverkunum úr höllinni og Spiegel byggir það bæði á samtali við mann sem Bernhardt reyndi að selja verkin og svo á því að skóstærð hans passar við ummerki í snjónum umrædda nótt. Þá hafi hann ekið eins bíl og var ekið á vettvangi samkvæmt vitnum á sínum tíma og loks passa meira að segja fingraför hans við fingraför þjófsins.
Samkvæmt þessu hefur Bernhardt stolið málverkunum og selt þau vinafólki sínu og á heimili þess héngu þau árum og áratugum saman, eins og sést á myndum í tímaritinu. Það er vitað með vissu að hann hafi á einhverjum tímapunkti selt þessi málverk, en hitt verður að sögn Spiegel ekki sannað með 100% vissu. Rökin séu þó meira en yfirgnæfandi sterk.
Málverkin voru á sínum tíma metin á um fimm milljónir austurþýskra marka. Þetta voru málverk eftir ofangreinda Frans Hals og Hans Holbein, en einnig eftir Jan Lievens, Jan Brueghel hinn eldri og eftirmynd af verki Van Dyck, Sjálfsmynd af sólblómi.
„Og af hverju myndi þessi lestarstjóri stela þessum málverkum?“ spyr Spiegel fyrrverandi konu hans. „Til þess að sanna að hann geti gert eitthvað sem engum hefur tekist áður.“ Og segja má að honum hafi tekist það, enda náði lögreglan ekki í skottið á honum í lifanda lífi.