Tugþúsundir taka þátt í mótmælum í höfuðborg Hvíta-Rússlands, Minsk, þar sem endurkjöri Alexanders Lúkasjenkós í embætti forseta er mótmælt. Undanfarna tvo sunnudaga hafa um 100 þúsund safnast saman á götum borgarinnar og krafist afsagnar forsetans.
Þrátt fyrir að þungvopnaðir sérsveitarmenn séu í miðborginni og hindri fjölmarga í að komast inn í mannþröngina eru tugþúsundir mættar til að mótmæla. Margir eru með fána stjórnarandstöðunnar og kalla: farðu.
Fjölmargir voru handteknir strax og fólk byrjaði að safnast saman fyrr í dag en ekki hefur enn verið beitt táragasi né gúmmíkúlum á mótmælendur líkt og við fyrri mótmæli.
Jafnframt eru fjölmenn mótmæli í bæjum eins og Brest og Grodno.