Innblástur óskarsverðlaunamyndar handtekinn

Paul Rusesabagina.
Paul Rusesabagina. Ljósmynd/BBC

Paul Rusesabagina, maðurinn sem óskarsverðlaunamyndin Hótel Rúanda er byggð á, hefur verið handtekinn fyrir hryðjuverkastarfsemi. 

Rusesabagina, sem er húti, varð heimsþekktur í kjölfar útgáfu kvikmyndarinnar Hótels Rúanda fyrir að fela hundruð tútsa á hóteli sínu í þjóðarmorðunum árið 1994 þegar um 800.000 tútsar voru myrtir á hundrað dögum. 

Rusesabagina, sem er 66 ára, stofnaði síðar stjórnmálaflokk til höfuðs stjórnarflokki Rúanda sem hafði til umráða vopnaðar sveitir staðsettar í Kongó. Hann hefur undanfarin ár verið í útlegð, en samkvæmt BBC liggur ekki fyrir hvar hann var handtekinn. 

Rusesabagina var árið 2011 sakaður um að hafa fjármagnað niðurrifsstarfsemi í Rúanda, en hann var aldrei ákærður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert