Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, fordæmdi í dag eyðileggingu styttu af John A. Macdonald, sem fyrstur manna skipaði það embætti sem Trudeau gegnir í dag.
Macdonald var forsætisráðherra Kanada árin 1867 til 1873 og svo aftur 1878-1891. Hefur hann á síðari tímum verið gagnrýndur fyrir að hafa neytt innfædda Ameríkana til að ganga inn í kanadíska samfélagið sem þá var að myndast, og í skýrslu yfirvalda árið 2015 var þessu lýst sem „menningarlegu þjóðarmorði“.
Stytta, sem reist var honum til heiðurs í miðborg Montreal árið 1895, var um helgina dregin niður af stalli sínum og afhöfðuð. Að verkinu stóðu hundruð mótmælenda sem saman voru komin til að sýna andstöðu gegn kynþáttahatri og lögregluofbeldi.
„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með skemmdarverkið sem átti sér stað um helgina,“ sagði Trudeau á blaðamannafundi í dag.
Kvaðst hann um leið skilja gremju landa sinna vegna hægfara þróunar hvað varðar að tækla kerfisbundna mismunun og kynþáttahyggju í samfélaginu.
„En við búum í réttarríki,“ bætti hann við. „Og við erum land sem þarf að virða þau lög, jafnvel á meðan við reynum að bæta þau og breyta, og skemmdarverk á borð við þetta eru ekki að leggja veginn að bættu réttlæti og jafnræði í þessu landi.“