Donald Trump Bandaríkjaforseti og andstæðingur hans í komandi forsetakosningum, demókratinn Joe Biden, tókust á vegna ofbeldis sem braust út í mótmælum í borginni Portland í Oregonríki um helgina.
Trump sakaði demókratann Ted Wheeler, sem er borgarstjóri í Portland, fyrir að gefa grænt ljós á „dauða og eyðileggingu borgar sinnar“.
Biden sagði forsetann aftur á móti hvetja til ofbeldis, að sögn BBC.
Karlmaður var skotinn til bana í Portland á laugardag og annars staðar í borginni lentu mótmælendur, sem eru fylgjendur Trumps, í átökum við mótmælendur hreyfingarinnar Black Lives Matter.
Mikið hefur verið um mótmælagöngur í Portland gegn lögregluofbeldi og kynþáttafordómum eftir að lögreglan drap George Floyd, svartan Bandaríkjamann, í borginni Minneapolis 25. maí.
Borgarstjórinn Wheeler varaði fólk við því að koma til borgarinnar til að leita hefnda vegna mannsins sem var drepinn um helgina. „Ég bið ykkur sem hafið talað um það á Twitter að þið ætlið að koma til Portland til að leita hefnda að halda ykkur í burtu,“ sagði hann.
Hann svaraði gagnrýni Trumps á þann veg að forsetinn hefði „skapað hatrið og sundurleitnina“. „Ég yrði þakklátur ef forsetinn myndi annaðhvort styðja við bakið á okkur eða halda sig fjarri,“ sagði hann.
Sumir aðgerðasinnar hafa krafist afsagnar borgarstjórans og segja að hann geti ekki leyst vandann sem uppi er vegna mótmælanna.
Í tístum sínum í gær sagði Trump að „Portland mun aldrei ná sér aftur á strik með bjána sem borgarstjóra“ og lagði til að sendar yrðu alríkissveitir til borgarinnar.
Hann sakaði Biden einnig um að vera „óviljugan til að stjórna“.
Í yfirlýsingu sagði Biden: „Trump telur eflaust að hann sýnist sterkur með því að tísta um lög og reglu en það að hann getur ekki beðið stuðningsmenn sína að hætta að leita í átök sýnir bara hversu vanmáttugur hann er.“
Trump hefur lagt áherslu á lög og reglu í kosningabaráttunni sinni og segir hann demókrata og Biden gera lítið til að stemma stigu við glæpum.