Facebook hótar að loka á notendur og fjölmiðlafyrirtæki í Ástralíu ef áform stjórnvalda um að þvinga samfélagsmiðilinn til að greiða fyrir efni verða að veruleika.
Í tilkynningu frá Facebook kemur fram að þetta myndi koma í veg fyrir að Ástralar gætu birt innlendar og erlendar greinar á Facebook og Instagram. Segir fyrirtækið að þetta sé ekki það sem það vilji gera en það eina sem það geti gert til þess að vernda hagsmundi félagsins.
Fjármálaráðherra Ástralíu, Josh Frydenberg, hafnar ásökunum Facebook og segir fyrirtækið reyna að beita stjórnvöld þvingunum í krafti stærðar.
Yfirmaður samkeppniseftirlits Ástralíu, Rod Sims, sem er höfundur lagafrumvarpsins, segir hótanir Facebook byggja á rangtúlkunum.
Áform stjórnvalda í Ástralíu ganga lengra en flestra annarra ríkja í að draga úr valdi bandarískra tæknirisa. Samkvæmt frumvarpsdrögunum verða Facebook og Google að greiða innlendum fréttaveitum fyrir efni sem birt er á síðum þeirra. Að öðrum kosti er þeim gert að greiða milljónir Bandaríkjadala í sektir.
Jafnframt er gerð krafa um gagnsæi þegar kemur að algóriðmum sem fyrirtækin nota.
Framkvæmdastjóri Facebook í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, Will Easton, segir frumvarpið byggja á misskilningi og fáfræði um styrk netsins og það muni hafa öfug áhrif, það er hafa slæm áhrif, á þær fréttaveitur sem því er ætlað að verja.
Með því verði Facebook þvingað til að greiða fréttaveitum fyrir efni sem útgefendur setja af fúsum og frjálsum vilja á samfélagsmiðla og um leið eru hunsaðir tekjumöguleikar sem Facebook veitir útgefendum með því að bjóða þeim að birta efni á miðlinum til að auka dreifingu frétta.