Engin hátíðarhöld verða í Danmörku í ár þegar Tuborg Julebrygg fer í sölu fyrir jólin. J-deginum svokallaða, þar sem haldið er upp á tímamótin, hefur verið aflýst og er sökudólgurinn kórónuveiran. Ekstrablaðið greinir frá þessu og hefur eftir Christian Sveigaard, markaðsstjóra Carlsberg, sem framleiðir bjórinn.
„Þetta var alls ekki léttvæg ákvörðun. En snjórinn mun falla,“ segir Sveigaard. Þótt J-deginum sjálfum hafi verið aflýst verður bjórinn þó vitaskuld settur í sölu.
Frá árinu 1990, níu árum eftir að Julebrygg kom fyrst á markað, hefur Carlsberg staðið fyrir umræddum J-degi fyrsta fimmtudag í nóvember. Vörubílar frá Carlsberg keyra þá með bjórinn á valda bari um land allt. Klukkan 20:59 er skrúfað frá dælunni og fá gestir jafnan ókeypis bjór fyrst um sinn. Þetta kalla Danir að láta snjóinn falla.
Óhætt er að segja að markaðsuppátækið sé vel heppnað enda vekur það jafnan mikla athygli og laðar að sér fjölda bjórþyrstra manna sem sólgnir eru í smakkprufurnar til að ganga úr skugga um að jólabruggið bragðist eins og í fyrra.
Síðustu ár hefur J-dagurinn haslað sér völl víðar um heim, þar á meðal á Íslandi. Var til að mynda þétt setið á Dönsku kránni og Stúdentakjallaranum þegar deginum var fagnað í fyrra en á þeim síðarnefnda mátti gæða sér á bjórnum fyrir litlar 50 krónur.