Tvö norsk stéttarfélög, Fellesforbundet og sjómannafélagið Sjømannsforbundet, hafa kært norsku farþegaskipaútgerðina Hurtigruten til lögreglunnar í Mæri og Raumsdal og er kæruefnið brot á norskri útlendingalöggjöf.
Málsástæður og lagarök stéttarfélaganna tveggja eru, að um leið og Tom Cruise og samstarfsfólk hans við gerð kvikmyndarinnar Mission Impossible 7 tóku farþegaskipið MS Fridtjof Nansen á leigu í heilan mánuð sem vistarverur, meðan tökur á atriðum í myndina fara fram í Åndalsnes og Stranda nær allan september, hafi skipið lögum samkvæmt breyst í hótel enda muni það að mestu liggja við festar allan tímann í Hellesylt.
Við breytinguna úr farþegaskipi, sem siglir undir alþjóðlegum fána, svokölluðum NIS-fána, í hótel færist kjör áhafnar MS Fridtjof Nansen að áliti stéttarfélaganna undir norsk lög og þar með þurfi áhöfn skipsins norskt dvalar- og atvinnuleyfi rétt eins og hún væri starfandi á hverju öðru hóteli í Noregi.
Slík réttindi þarf áhöfnin ekki í siglingum við Noregsstrendur, þótt þær séu nánast allar milli norskra hafna, þar sem skipið siglir undir alþjóðlegum fána, og er Hurtigruten þar með ekki bundin norskum kjarasamningum og getur því greitt starfsfólki sínu um borð, sem flest kemur frá Filippseyjum, allt niður í 29 norskar krónur á tímann, upphæð sem samsvarar 457 íslenskum krónum.
Engin lágmarkslaun eru lögfest í Noregi en flestar starfsgreinar hafa þó ákveðið sín lágmarkslaun í samningum og til að setja 29 krónurnar hjá Hurtigruten í samhengi má nefna sem dæmi að lágmarkstímalaun við landbúnað og garðyrkju eru 103,15 krónur (1.624 ISK) fyrir starfsfólk undir 18 ára aldri en 143,05 krónur (2.254 ISK) fyrir ófaglærða fullorðna manneskju miðað við fastráðningu.
„Það er með öllu ólíðandi að hægt sé að leggja skipi að bryggju [í Noregi] þar sem launakjör um borð eru allt niður í 29 krónur á tímann,“ segir Johnny Hansen, formaður Sjómannafélagsins, við norska dagblaðið VG auk þess sem hann telur að Hurtigruten beri skylda til að ráða norskar áhafnir sem nú sitji heima á bótum vegna kórónukreppu.
„Ríkið greiðir norskum sjómönnum atvinnuleysisbætur á meðan Hurtigruten lætur fljúga með mannskap frá Filippseyjum í störfin. Þetta er eins langt frá því að taka þátt í samstöðu þjóðarinnar og komist verður,“ segir formaðurinn.
Jørn Eggum, formaður Fellesforbundet, stærsta stéttarfélags Noregs, sem starfar innan margra greina og heldur úti kjarasamningum við 5.000 vinnustaði, tekur undir með Hansen og segir háttsemi Hurtigruten forkastanlega.
„Það er ekki í lagi að nota skip með alþjóðlegri skráningu sem hótel, loka augunum og vona að enginn komist að því að starfsfólkið er ekki nálægt þeim reglum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum sem lögfestar eru í Noregi,“ segir hann og bætir við:
„Grípi lögreglan eða vinnueftirlitið ekki inn í verður ríkisstjórnin að gera það, það getur varla talist „mission impossible“.“
MS Fridtjof Nansen er annað tveggja skipa sem Tom Cruise hefur tekið á leigu vegna gerðar myndarinnar en leikaranum hefur orðið tíðrætt um það ástfóstur sem hann tók við norska náttúru þegar hann hékk utan á klettinum Preikestolen, skammt frá Stavanger í Rogaland, við tökur á lokaatriði Mission Impossible 6 í september 2017 og fékk hann sérstaka undanþágu frá sóttkvíarreglum til að koma með 200 manna starfslið frá Bandaríkjunum nú.
Anne Marit Bjørnflaten, samskiptastjóri Hurtigruten gagnvart yfirvöldum, sem útgerðinni veitir varla af að hafa eftir að hún komst á allar forsíður og sætti lögreglurannsókn fyrir að hafa reynt að þagga niður 70 kórónuveirutilfelli áhafnar og farþega MS Roald Amundsen fyrir mánuði, segir ásakanir stéttarfélaganna úr lausu lofti gripnar.
Notkun skipsins brjóti ekki reglur skipa með NIS-skráningu. „Það hefur Siglingamálastofnun staðfest. Starfsfólkið eru sjómenn sem starfa innan ramma þeirra reglna sem gilda um NIS-skip. Sjómannafélaginu er fullkunnugt um að engin félagsleg undirboð eiga sér stað á NIS-skipum,“ segir Bjørnflaten.
„MS Fridtjof Nansen varð ekki fyrir valinu í þetta verkefni til að draga úr kostnaði heldur vegna þess að skipið er heppilegast fyrir þetta verkefni, ekki síst hvað sóttvarnir áhrærir,“ segir samskiptastjórinn, en í síðustu viku komst það í hámæli að fjórir hópar farþega á MS Fridtjof Nansen smituðust af kórónuveiru í vor og belgískur karlmaður lést af sótt sinni eftir heimkomu í kjölfar þess að skipslæknir sagði einkenni hans ekki benda til kórónuveirusmits.
„Mér finnst því illskiljanlegt hvers vegna Sjómannafélagið hefur uppi slíkar órökstuddar fullyrðingar,“ segir hún.
Svein Rike, deildarstjóri útlendingaeftirlitsdeildar lögreglunnar í Mæri og Raumsdal, staðfestir við VG að lögreglunni hafi borist kæra stéttarfélaganna og málið sé nú til athugunar.