Mótmæli XR hefjast í dag

Tveggna vikna umhverfismótmæli Extinction Rebellion (XR) hefjast í dag, en mótmæli eru skipulögð í Lundúnum, Cardiff og Manchester.

Þau stærstu verða í Lundúnum. Mótmælendur munu marsera frá fjórum stöðum, Buckingham-höll, Trafalgar-torgi, Westminster-dómkirkju og Tate Britain-safninu, og koma saman fyrir utan þinghúsið í Lundúnum, á Parliament-torgi. The Guardian greinir frá.

Mótmælin snúast fyrst og fremst um hið svokallaða CEE-frumvarp (The Climate and Ecological Emergency Bill), en stefnt er að því að mótmælin standi yfir þar til frumvarpið verður samþykkt í þinginu.

Breska þingið kemur saman í dag eftir sumarfrí, en í tilkynningu frá XR segir að „fólkið í Bretlandi sé langþreytt á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í garð loftslags- og umhverfisvárinnar“.

Mótmælendur munu setjst niður á Parliament-torgi, fyrir utan þinghúsið í …
Mótmælendur munu setjst niður á Parliament-torgi, fyrir utan þinghúsið í London. AFP

Þúsundir þrátt fyrir veiruna

Mótmælendur munu setjast niður á Parliament-torgi um hádegi í dag, og stefnt er að því að halda kyrru fyrir í nokkra daga.

Anneka Sutcliffe, einn skipuleggjenda mótmælendanna, sagði í samtali við The Guardian að þótt samtökin reikni með að færri mæti á mótmælin í dag vegna kórónuveirufaraldursins sé engu að síður reiknað með að þúsundir taki þátt í þeim.

Lögreglan í Lundúnum hefur þegar lagt mótmælendum línurnar. Að sögn The Guardian hefur lögreglan hótað að sekta samtökin um 10 þúsund pund fyrir að skipuleggja fjöldasamkomu þar sem fleiri en 30 koma saman.

Þá hafi lögreglan bannað notkun allra farartækja eða mannvirkja sem hluta af mótmælunum, að sögn Evening Standard.

Um helgina fóru fram minni mótmæli víða um Bretland, meðal …
Um helgina fóru fram minni mótmæli víða um Bretland, meðal annars í Manchester. AFP

Í apríl 2019 vöktu samtökin heimsathygli þegar mótmælaaðgerðir þeirra lömuðu hluta Lundúna. Mótmælendur lokuðu umferðargötum og brúm í borginni, en um 1.500 manns voru handteknir í tengslum við mótmælin.

Að sögn samtakanna verður sóttvarna gætt meðan á mótmælunum stendur; viðstaddir eru beðnir að vera með grímu og hanska, auk þess að nota handspritt til að draga úr líkum á smiti.

AFP
Mótmælendur á DLR línunni í Lundúnum.
Mótmælendur á DLR línunni í Lundúnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert