Líbanskir stjórnmálaleiðtogar hafa lofað að mynda nýja ríkisstjórn innan tveggja vikna. Frá þessu greindi Emmanuel Macron, forseti Frakklands, í dag eftir viðræður við fulltrúa stjórnmálaflokka í ríkinu fyrir botni Miðjarðarhafs.
„Það sem ég hef beðið um, og það sem allir stjórnmálaflokkar án undantekninga hafa skuldbundið sig til að gera í kvöld, er að myndun nýrrar ríkisstjórnar taki ekki meira en fimmtán daga,“ sagði forsetinn í ræðu.
Bætti hann við að ríkisstjórnin yrði skipuð hæfum einstaklingum og yrði sömuleiðis sjálfstæð eining, með stuðningi stjórnmálaflokka.
Mustapha Adib, sem gegnt hafði embætti sendiherra Líbanons í Berlín frá árinu 2013, var í gær útnefndur forsætisráðherra landsins.