Ron Jeremy ákærður fyrir tugi brota

Ron Jeremy.
Ron Jeremy. AFP

Klámmyndaleikarinn Ron Jeremy var í gær ákærður fyrir kynferðisofbeldi gagnvart 15 ára gamalli stúlku og á annan tug kvenna. Saksóknari í Los Angeles greindi frá þessu í gær.

Jeremy, sem lék í yfir 1.700 klámmyndum á ferlinum, var í júní ákærður fyrir að hafa nauðgað þremur konum og beitt þá fjórðu kynferðislegu ofbeldi. Þegar hann var handtekinn og ákærður á þeim tíma stigu fleiri konur fram og greindu frá ofbeldi af hans hálfu. 

Hann var í gær leiddur fyrir dómara og neitaði þar sök að sögn lögmanns hans. Alls eru ákærurnar nýju 20 talsins og ná allt aftur til ársins 2004. Þá á Jeremy að hafa ráðist á 15 ára stúlku í teiti í Santa Clarita, sem er fyrir utan Los Angeles. Þolendur ofbeldisins eru á aldrinum 15-54 ára og er nýjasta málið frá því á nýársdag í ár. Meðal ákæra eru fimm nauðganir, þrjár ákærur um að hafa þvingað konur til munnmaka auk fleiri árása.

Ron Jeremy kom hingað til lands árið 2002 og vakti það athygli á þeim tíma að Guðrún Gunnarsdóttir, þáverandi þáttastjórnandi á Stöð 2, neitaði að vera viðstödd og taka þátt í viðtali við Jeremy. 

Samráðshópur gegn klámvæðingu veitti Guðrúnu Gunnarsdóttur í kjölfarið sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa veitt viðspyrnu gegn klámvæðingu. Guðrún, sem var einn umsjónarmanna þáttarins Ísland í dag, neitaði fyrir nokkru að vera í myndverinu þegar viðtal við klámmyndaleikarann Ron Jeremy var tekið í þættinum í tengslum við komu hans hingað til lands.

Mótmæli Guðrúnar voru í kjölfarið nokkuð í umræðunni og Guðrún m.a. gagnrýnd fyrir að grípa til aðgerða með þessum hætti.

Morgunblaðið birti viðtal við hann á sínum tíma um ferilinn og má lesa það hér

Meira hér  og hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert