Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ætlar að heimsækja Wisconsin á kosningaferðalagi sínu í dag, þar á meðal borgina Kenosha en þar var svartur maður skotinn sjö sinnum í bakið af lögreglu nýverið.
Trump hunsar þar aðvaranir um að hann sé ekki velkominn til borgarinnar og hefur gefið út að það hvarfli ekki að honum að hitta eða ræða við fjölskyldu Jacob Blake sem er lamaður eftir skotárás lögreglunnar sem þrír ungir synir hans urðu vitni að. Þess í stað ætlar Trump að hitta lögreglumenn og skoða skemmdir eftir ofbeldið sem braust út í kjölfar þess að lögreglan skaut Blake 23. ágúst.
Frá þeim tíma hefur verið mótmælt daglega í borginni, óeirðir hafa brotist út og til átaka hefur komið milli ólíkra hópa. Með þeim afleiðingum að 17 ára drengur, Kyle Rittenhouse, sem er mikill aðdáandi Trumps og hernaðar, skaut tvær manneskjur til bana og særði þá þriðju alvarlega.
Demókratar og þeir sem berjast fyrir breytingum á lögreglunni í Bandaríkjunum líta á Kenosha sem táknmynd innbyggðs rasisma hjá stofnunum eins og lögreglunni sem þurfi að breyta.
Trump hefur komið því skilmerkilega til skila að fyrir honum horfi þetta öðruvísi við. Ástandið sé dæmigert fyrir það stjórnleysi sem ríki í borgum þar sem demókratar eru við völd.
Talskona hans, Kayleigh McEnany, segir að Trump ætli að hitta lögreglumenn að máli og eins ræða við eigendur fyrirtækja á sama tíma og hann skoðar skemmdirnar.
Hann segist ekki sjá neina ástæðu til að fordæma morðin sem Kyle Rittenhouse framdi þegar hann gekk um götur borginnar vopnaður riffli. Þetta sé áhugavert ástand og að Rittenhouse hafi verið að bregðast við árás.
Þrátt fyrir að andstæðingur hans, Joe Biden, hafi rætt við fjölskyldu Blake í síma segir Trump að það komi ekki til greina að hitta þau vegna þess að þau hafi viljað að lögfræðingur þeirra yrði viðstaddur. „Það er óviðeigandi,“ segir Trump án þess að útskýra það nánar.
Trump segir að hann hafi hins vegar átt frábært samtal við prestinn sem væri dásamlegur maður. Faðir Blake, Jacob Blake eldri, er hissa á þessum ummælum Trumps og segir að hann skilji þau einfaldlega ekki. „Við erum ekki með fjölskylduprest,“ segir hann í samtali við CNN. „Ég veit ekki við hvern hann talaði og mér er alveg sama.“
Ríkisstjóri Wisconsin, Tony Evers, hefur beðið Trump um að sleppa því að heimsækja ríkið því koma hans geti orðið olía á eld óeirða. Í svipaðan streng tekur borgarstjórinn í Kenosha, John Antaramian. Trump segir aftur á móti að heimsókn hans geti aukið ást og virðingu fyrir Bandaríkjunum.
Faðir Blake segir að fjölskyldunni hafi borist hótanir og hún neyðst til þess að flytja sig á milli hótela í öryggisskyni. „Við viljum ekki gefa upp hvar þau dvelja þar sem við höfum séð ýmislegt sjúklegt gerast í Kenosha. Það versta sem gæti gerst er að fjölskyldan þurfi að þola frekara andlegt ofbeldi ofan á allt annað sem þau eru að takast á við,“ segir verjandi fjölskyldunnar, Ben Crump.