Joe Biden, forsetaefni demókrata og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hyggst heimsækja borgina Kenosha í Wisconsin-ríki á morgun, fimmtudag. Donald Trump Bandaríkjaforseti heimsótti borgina á þriðjudagskvöld.
Mótmæli spruttu upp í Kenosha í lok ágúst þegar Jacob Blake, sem er svartur, var skotinn 7 sinnum í bakið af lögreglumönnum.
„Biden varaforseti mun halda fund með íbúum í Kenosha svo að Bandaríkjamenn geti komið saman til að jafna sig og takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir,“ segir í yfirlýsingu frá framboði Bidens.
Ríkisstjóri Wisconsin og borgarstjóri Kenosha, sem báðir eru demókratar, vöruðu Trump við því að hann væri ekki velkominn til borgarinnar. Hann fór á fund lögreglunnar í Kenosha í gær og skoðaði eyðilegginguna sem varð þegar óeirðir brutust út í kjölfar mótmælanna.