Eitrað var fyrir rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní með Novichok-taugaeitri að sögn yfirvalda í Þýskalandi.
Samkvæmt niðurstöðum eiturefnaprófs á sýnum úr Navalní er „ótvírætt“ að honum hafi verið byrlað eitur úr hópi Novichock-taugaeiturs, eftir því sem fram kemur á BBC.
Navalní var fluttur til Berlínar eftir að hafa veikst skyndilega um borð í flugi frá Síberíu til Moskvu í ágúst. Honum hefur verið haldið sofandi síðan.
Stuðningsmenn Navalnís fullyrða að eitrað hafi verið fyrir hann með samþykki Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Yfirvöld í Kreml hafa neitað ásökununum.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fundaði í dag með embættismönnum um næstu skref málsins. Þá stendur til að funda um niðurstöðu efnaprófsins á vettvangi NATÓ og Evrópusambandsins.
Novichok er heiti á hópi taugaeiturs sem þróað var í Sovétríkjunum á 8. og 9. áratug síðustu aldar.