Flugu fram hjá manni með þotubagga

Frá alþjóðaflugvellinum í Los Angeles.
Frá alþjóðaflugvellinum í Los Angeles. AFP

Tveir flugmenn sem stýrðu farþegaþotu American Airlines á leið frá Philadelphiu til Los Angeles á sunnudag flugu fram á óvenjulega sjón þar sem þeir nálguðust LAX-flugvöllinn í þrjú þúsund feta hæð yfir sjávarmáli.

„Flugturn, American 1997 – við flugum rétt í þessu fram hjá gæja með þotubagga (e. jetpack),“ heyrist flugmaðurinn tjá flugumferðarstjórninni í Los Angeles um klukkan 18.35 að staðartíma á sunnudag.

Heyra má samtalið sem hefst þegar um 5 mínútur og 20 sekúndur eru liðnar af þessari upptöku.

„Var viðkomandi vinstra megin eða hægra megin?“ spurði flugumferðarstjórinn á móti og fékk þau svör að maðurinn hefði verið tæpa 300 metra frá vinstri hlið þotunnar. Hálfri mínútu síðar kvaðst annar flugmaður einnig hafa flogið fram hjá manninum.

Dagblaðið New York Times hefur eftir Seth Young, prófessor í flugi við ríkisháskóla Ohio, að mjög hættulegt sé að fljúga svo nærri þotu, einkum á svo umferðarþungu svæði sem er í kringum alþjóðaflugvöllinn í Los Angeles.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert