Grafalvarlegt að efnavopni hafi verið beitt gegn Navalní

Alexei Navalní sést hér í Moskvu í desember sl.
Alexei Navalní sést hér í Moskvu í desember sl. AFP

Framkvæmdastjóri Alþjóðlegu efnavopnastofnunarinnar (OPCW) segir að fréttir þýskra stjórnvalda af því að eitrað hafi verið fyrir rússneska stjórnarandstæðingnum Alexi Navalní með taugaeitrinu novichok séu grafalvarlegar. 

Fernando Aria segir að stofnunin, sem hefur aðsetur í Haag í Hollandi, sé reiðubúin að aðstoða öll þau ríki sem óski eftir hjálp. 

„Samkvæmt efnavopnasáttmálanum er litið á sérhverja eiturbyrlun með taugaeitri sem notkun á efnavopni. Slíkar ásakanir eru grafalvarlegar,“ segir Arias. 

Hann segir ennfremur að notkun efnavopna sé ámælisverð auk þess sem það sé þvert á öll alþjóðleg viðmið. 

Þýsk stjórnvöld greindu frá því í gær að eitrað hafi …
Þýsk stjórnvöld greindu frá því í gær að eitrað hafi verið fyrir Navalní með taugaeitrinu Novichok. Hér má sjá Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. AFP

„OPCW mun halda áfram að fylgjast með málinu og stofnunin er reiðubúin að taka þátt eða veita þeim ríkjum aðstoð sem þess óska.“

Þýsk stjórnvöld greindu frá því í gær að þau myndu setja sig í samband við alþjóðlegu efnavopnastofnunina vegna málsins, en tóku þó ekki fram hvort þýska ríkið myndi óska eftir formlegri aðstoð, sem Þjóðverjar eiga rétt á samkvæmt efnavopnasáttmálanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert