Hvetur fólk til að kjósa tvisvar

Donald Trump flytur ávarp í Norður-Karólínu í gær.
Donald Trump flytur ávarp í Norður-Karólínu í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti fylgjendur sína í Norður-Karólínuríki til þess að kjósa tvisvar í forsetakosningunum í nóvember, þrátt fyrir að það sé ólöglegt. 

Forsetinn lagði til við kjósendur að þeir kysu einu sinni með því að póstleggja atkvæði sitt og síðan aftur á kjörstað. 

„Leyfið þeim að senda inn og leyfið þeim að kjósa. Og ef þetta kerfi er jafngott og þeir segja þá augljóslega má fólk ekki kjósa (á kjörstað),“ sagði forsetinn við blaðamenn í gær. 

Í kjölfar ummæla forsetans sagði Josh Stein, ríkissaksóknari Norður-Karólínu, að Trump hefði „svívirðilega hvatt fólkið í ríkinu til þess að brjóta lögin í því skyni að hjálpa honum að skapa óreiðu í kringum kosningarnar“.

„Munið að kjósa, en ekki kjósa tvisvar. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að tryggja að vilji fólksins nái fram að ganga í nóvember,“ sagði Stein ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert