Mun bóluefni við kórónuveirunni verða hrint fram á sjónarsviðið áður en upp rennur dagur forsetakosninga í Bandaríkjunum þriðjudaginn 3. nóvember?
Sérfræðingar óttast að forsetinn Donald Trump, sem stendur nú frammi fyrir þeim raunhæfa möguleika að sitja aðeins eitt kjörtímabil í embætti, gæti freistast til að þrýsta á að leyft verði bóluefni áður en að kjördegi kemur, án þess þó að öryggi þess og virkni hafi á þeim tímapunkti verið sannreynd.
Tveir framleiðendur, Pfizer og Moderna, hófu lokastig prófana á efnum sínum 27. júlí. Paul Mango, háttsettur embættismaður innan bandaríska heilbrigðisráðuneytisins, sagði í síðustu viku að fyrirtækin hefðu þá náð 15 þúsund sjálfboðaliðum af þeim þrjátíu þúsund sem hann kvaðst þurfa til.
Bóluefni Pfizers krefst þess að viðtakandinn fái tvo skammta á 21 degi. Efni Moderna þarf að taka tvisvar á 28 dögum. Bæði efnin eru mynduð á grundvelli sömu tækni, það er með því að nota svonefnt mRNA, (miðlandi RNA, e. messenger RNA), sem lofar góðu en hefur aldrei áður sannað gildi sitt við gerð bóluefnis.
Í forprófunum vöktu bæði efnin ónæmisviðbrögð í þeim sem prófaðir voru. En það eitt tryggir þó ekki að þau myndu virka gegn smiti.
Annað bóluefni, sem AstraZeneca þróar í samstarfi við Oxford-háskóla, hefur þegar komist á þriðja stig prófana í nokkrum löndum og er nú einnig verið að prófa það í Bandaríkjunum.
Í prófunum hefur helmingur þátttakenda fengið bóluefnið og hinn helmingurinn fengið lyfleysu. Ef bóluefnið virkar þá munu með tíð og tíma fleiri þeirra sem fengu lyfleysuna sýkjast af veirunni á sama tíma og færri tilfelli verða í hópi þeirra sem fengu sjálft efnið.
Til að fá skjótar niðurstöður hafa rannsakendur ákveðið að vinna á svæðum þar sem hlutfall smita í samfélaginu er hátt. Forstjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, CDC, hefur sagt að til að bóluefnið sanni gildi sitt þurfi um 150 til 175 manns að smitast í lyfleysuhópnum á sama tíma og aðeins örfá tilfelli mega verða í hinum hópnum.
Í Bandaríkjunum er það Matvæla- og lyfjastofnunin sem fer yfir gögn úr prófunum og getur gefið svokallað neyðarleyfi til að hleypa lyfinu fyrr á markað til almennings.
Paul Offit, sem situr í bóluefnisráðgjafarnefnd stofnunarinnar, segir óháða sérfræðinga í gögnum og öryggi hafa yfirumsjón með prófunum og fari sömuleiðis yfir niðurstöðurnar. Þeir munu þurfa að meta hvenær og hvort gögnin sýni fram á að bóluefnin virki og séu örugg. Framleiðendur muni í kjölfarið geta óskað eftir neyðarleyfi.
Lokaákvörðunin er svo í höndum framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Stephen Hahn. Sá hefur áður samþykkt umdeildar en Trump-þóknandi meðferðir við veirunni, á borð við notkun hýdroxýklórókíns og blóðvökva, og draga því sumir sérfræðingar í efa getu hans til að standast pólitískan þrýsting um að veita leyfið, reynist niðurstöður prófananna ekki skýrar.