Ríkissaksóknari New York-ríkis rannsakar nú dauða svarts manns eftir að myndband rataði upp á yfirborðið sem sýnir lögreglumenn setja hettu á höfuð mannsins og þvinga andlit hans að götunni.
Greint var frá andláti mannsins, Daniels Prude, á blaðamannafundi í gær, en fjölskylda hans stóð fyrir fundinum.
Prude dó viku eftir að hann var tekinn höndum, en ættingjar hans og aðrir aðgerðasinnar hafa kallað eftir aðgerðum vegna málsins.
Í tilkynningu frá Letitiu James, ríkissaksóknara New York-ríkis, segir að rannsókn málsins sé í höndum embættisins, og að ábyrgðar og gegnsæis verði gætt í málinu.
Prude var handtekinn 23. mars síðastliðinn, en maðurinn var mögulega í geðrofi þegar lögreglan kom að honum. Samkvæmt myndbandi af atburðinum var Purdue nakinn og óvopnaður þegar lögreglu bar að garði.
Maðurinn hlýddi í fyrstu skipunum lögreglu um að leggjast á jörðina, en þegar hann var kominn í handjárn æstist Purdue, en þá settu lögreglumenn svokallaða hrákahettu (e. spit hood) á hann og þvinguðu höfuð hans að götunni.
Við það missti maðurinn meðvitund og var sendur á sjúkrahús, þar sem hann lést viku síðar eftir að slökkt var á öndunarvél sem hélt honum á lífi.