Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur biðlað til íranskra stjórnvalda um að þyrma lífi glímukappa sem var dæmdur til dauða eftir að hafa verið fundinn sekur um morð.
„Heyrði að Íran ætlar að taka af lífi frábæra og vinsæla glímustjörnu, Navid Afkarai sem er 27 ára, sem eingöngu tók þátt í mótmælum á götum úti,“ skrifaði Trump í óvenjulegu tísti þar sem hann beindi sjónum að Íransstjórn.
„Til leiðtoga Írans, ég yrði mjög þakklátur ef þið þyrmduð lífi þessa unga manns og tækjuð hann ekki af lífi. Takk fyrir!“ tísti forsetinn og lét fylgja með frétt Fox News um glímukappann, bardagasamtökin UFC og forseta þess Dana White.
...To the leaders of Iran, I would greatly appreciate if you would spare this young man’s life, and not execute him. Thank you! @UFC @DanaWhite @FoxNews https://t.co/NkJb4IsQpt
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 3, 2020
Trump hefur lengi verið aðdáandi ýmissa tegunda af glímu og þekkir White vel. Forsetinn hefur aftur á móti tekið harða afstöðu gegn Íran síðan hann tók við embætti og beitt þjóðina viðskiptaþvingunum.
Íranska ríkissjónvarpið greindi frá því í gær að Afkari hefði verið dæmdur til dauða. Fréttastofan Mizan Online sagði að hann hefði verið fundinn sekur um að hafa myrt verkamann í Shiraz í suðurhluta Írans en hann var stunginn til bana 2. ágúst árið 2018. Þennan dag fóru fram mótmæli í Shiraz og í fleiri borgum í landinu gegn írönskum stjórnvöldum vegna slæmra efnahags- og félagslegra aðstæðna.
Erlendar fréttastofur sögðu að Afkari hefði verið fundinn sekur eftir að hafa játað á sig morðið í kjölfar pyntinga. Herferð hófst í framhaldinu á netinu þar sem krafist var lausnar hans.