Vísar á bug niðrandi ummælum um fallna hermenn

Donald Trump á kosningafundi.
Donald Trump á kosningafundi. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur vísað á bug ásökunum um að hann hafi látið niðrandi ummæli falla um bandaríska hermenn sem voru handsamaðir eða drepnir í stríði.

Að sögn tímaritsins The Atlantic aflýsti Trump heimsókn í bandarískan kirkjugarð fyrir utan París árið 2018 vegna þess að hann sagði hann „uppfullan af aumingjum“.

Síðan þá hafa tveir háttsettir embættismenn í hernum staðfest ásakanirnar í frétt AP-fréttastofunnar. En í tísti sagði forsetinn að þessar ásakanir væru „skáldaðar falsfréttir“.

Í heimsókninni til Frakklands 2018 hætti Trump við að heimsækja Aise-Marne American-kirkjugarðinn. Á þeim tíma kenndi hann slæmu veðri um.

Rigningin ruglaði hárinu 

Fjórir heimildarmenn The Atlantic segja aftur á móti að hann hafi aflýst heimsókninni vegna þess að rigningin gæti ruglað hárinu á honum og honum fyndist ekki mikilvægt að heiðra fallna bandaríska hermenn, að sögn BBC

Í Frakklandi er forsetinn sagður hafa nefnt þá 1.800 bandarísku hermenn sem féllu í Belleau Wood „kjána“. Bardaginn var liður í því að koma í veg fyrir framgang þýska hersins til Parísar í fyrri heimsstyrjöldinni og er bardaginn í hávegum hafður hjá bandaríska sjóhernum.

Þrír heimildarmenn sögðu The Atlantic að Trump hefði að minnsta kosti tvívegis kallað George H.W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, „aumingja“ fyrir að hafa verið skotinn niður af Japönum er hann var flugmaður sjóhersins í seinni heimsstyrjöldinni.

Samsett mynd af John McCain og Donald Trump.
Samsett mynd af John McCain og Donald Trump. AFP

Trump hefur verið gagnrýndur áður fyrir niðrandi ummæli um fyrrverandi hermenn. Árið 2015 gerði hann lítið úr hetjudáð þingmanns repúblikana, Johns McCains, sem var handsamaður í Víetnamstríðinu. „Mér líkar vel við fólk sem náðist ekki,“ sagði hann í viðtali.

Á Twitter viðurkennir forsetinn að hann hafi aldrei verið mikill aðdáandi McCains en það að flagga í hálfa þegar hann lést og „fyrsta flokks“ útför hans í Washington „þurfti að vera samþykkt af mér, sem forseta, og ég gerði það án þess að hika eða kvarta. Þvert á móti, fannst mér hann eiga þetta skilið,“ tísti hann. 

Trump bætti við að hann hafi aldrei kallað McCain aumingja og að hann hafi aldrei kallað fallna hermenn annað en hetjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert