Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO tilkynnti í dag að stofnunin myndi ekki veita bóluefni blessun nema gengið hafi verið úr skugga um að það sé öruggt og árangursríkt.
Þetta sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, á stafrænum blaðamannafundi í dag.
Víða um heim keppast aðilar við að framleiða bóluefni við kórónuveirunni, en áhyggjur hafa vaknað um að of geyst sé farið í þróun bóluefnisins.
Meira en 26 milljónir manns hafa smitast af veirunni, og hundruð þúsunda hafa látist. Efnahagslegra áhrifa veirunnar gætir einnig víða.
Tedros sagðist fagna mögulegum bóluefnum sem eru nú á síðustu stigum prófunar og vonast til þess að eitt þeirra muni verða aðgengilegt von bráðar.
Í dag greindi mbl.is frá því að WHO gerði ekki ráð fyrir útbreiddu bóluefni gegn kórónuveirunni fyrr en um mitt næsta ár. Þá ítrekuðu samtökin að strangt eftirlit þurfi að hafa með virkni og öryggi bóluefna sem eru í þróun.
Undir venjulegum kringumstæðum tekur gjarnan mörg ár til að ganga úr skugga um að bóluefni sé hættulaust og árangursríkt, en spurnin eftir bóluefni við kórónuveirunni er gríðarleg og því mikil pressa að stytta þann tíma sem mest.
Tedros staðhæfði á fundinum að WHO myndi aðeins samþykkja bóluefni sem væru örugg og árangursrík.