Alls eru 150 smitaðir í norsku borgunum Frederikstad og Sarpsborg vegna hópsmits sem á upptök sín í trúarsamkomu sem átti sér stað fyrr í vikunni. Talið er að að minnsta kosti ein manneskja hafi verið smituð þegar hún mætti á hátíðarhöldin. Alls eru 1.100 í sóttkví vegna hópsmitsins. NRK greinir frá þessu.
Í gærkvöldi voru níu ný smit staðfest í Sarpsborg sem tengjast trúarhátíðinni og 40 í Frederikstad.
„Þegar fjöldi tilfella er svona mikill mun ekki líða langur tími þar til við missum stjórn á flutningsleiðum smitanna og verðum ófær um að hafa yfirsýn yfir útbreiðsluna,“ segir Sofie Lund Danielsen, yfirlæknir í Frederikstad.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, segir í samtali við NRK að yfirvöld fylgist grannt með hópsmitinu. Hún telur að nú sé mikilvægast að fylgja þeirri stefnu sem yfirvöld hafa sett til að ná stjórn á faraldrinum.
„Stefna okkar er að prófa, einangra og rekja smit og setja fólk í sóttkví. Á meðan við sjáum þetta sem staðbundið smit sem tengist einstökum svæðum fylgjum við þessari stefnu til að berjast gegn frekari útbreiðslu,“ segir Solberg.