16 af 25 Íslendingum í Ischgl smituðust

Ischgl býður upp á afar vinsæl skíðasvæði og er skemmtanahaldið …
Ischgl býður upp á afar vinsæl skíðasvæði og er skemmtanahaldið þar sagt líflegt. AFP

Í ít­ar­legri um­fjöll­un breska tíma­rits­ins Guar­di­an um mik­inn fjölda kór­ónu­veiru­smita sem eiga ræt­ur sín­ar að rekja til Aust­ur­ríska skíðabæj­ar­ins Ischgl er farið yfir aðkomu Íslend­inga að mál­inu. Í um­fjöll­un­inni er full­yrt að sex­tán af 25 Íslend­ing­um sem dvöldu í þrem­ur hóp­um í Ischgl hafi smit­ast af veirunni. Eins og mbl.is hef­ur áður greint frá eru sjö Íslend­ing­ar í hópi nærri 6.000 manna sem boðað hafa hóp­mál­sókn gegn stjórn­völd­um í Tíról, héraði Ischgl. 

Hóp­ur­inn sak­ar yf­ir­völd um að hafa vís­vit­andi haft hljótt um út­breiðslu kór­ónu­veiruf­ar­ald­urs á skíðasvæðunum í í fe­brú­ar og mars, og þar með sett efna­hag svæðis­ins ofar heilsu gesta sinna.

Í um­fjöll­un Guar­di­an er rætt við Bret­ann Charlie Jackson sem fór í skíðaferð til Ischgl á sama tíma og smit fór að breiðast þar út. 4. mars fékk hann póst frá ís­lenskri konu sem hafði dvalið ásamt fjöl­skyldu sinni á sama hót­eli og Jackson. Þar greindi kon­an Jackson frá því að hún hefði greinst smituð af kór­ónu­veirunni eft­ir að hún sneri aft­ur til Reykja­vík­ur. Kon­an bætti því við að hún vissi ekki hvort hún hefði verið smit­andi í Ischgl og það væri mögu­legt að hún hefði smit­ast á leið sinni heim til Íslands. Flug­fé­lagið henn­ar greindi henni frá því að henn­ar hóp­ur hefði flogið í sömu vél og smitaður maður sem hafði verið á skíðum á Ítal­íu.

Kon­an hafði verið á ferðalagi með þrem­ur hóp­um af ís­lensk­um ferðamönn­um, 25 manns alls, sem þekktu hvert annað og dvöldu á tveim­ur hót­el­um og í nokkr­um íbúðum frá 22.-29. fe­brú­ar. Nokk­ur þeirra voru lækn­ar svo hóp­ur­inn hafði fylgst náið með frétt­um af heims­far­aldri kór­ónu­veiru.

Tíról sagði Íslend­ing­ana lík­lega hafa smit­ast í vél­inni

Eft­ir að einn ís­lensku ferðamann­anna sýndi ein­kenni COVID-19 hinn 26. fe­brú­ar og ann­ar fór að finna fyr­ir slapp­leika varð hóp­ur­inn var um sig. 16 af þess­um 25 Íslend­ing­um reynd­ust smitaðir af veirunni. 

Heil­brigðis­yf­ir­völd hér­lend­is sendu þá skila­boð út til koll­ega sinna í Vín og að morgni 5. mars settu ís­lensk stjórn­völd Ischgl á lista yfir áhættu­svæði og var bær­inn þá kom­inn í flokk með Wu­h­an, þar sem veir­an kom fyrst upp, og Íran. Sam­dæg­urs var neyðar­fund­ur boðaður hjá kór­ónu­veiru­teymi Ischgl og voru til­felli Íslend­ing­anna rædd þar. 

Þegar lýðheilsu­full­trúi Tíról sendi frá sér frétta­til­kynn­ingu síðar um dag­inn var hún þó ekki til þess fall­in að setja svæðið í viðbragðsstöðu held­ur til þess að róa fólk niður. Í yf­ir­lýs­ing­unni sagði fram­kvæmda­stjóri heil­brigðismála í Ischgl að ís­lensku ferðamenn­irn­ir hefðu lík­lega smit­ast í flug­vél­inni frá München til Reykja­vík­ur. Viðbrögð svæðis­ins byggðust því á orðum ís­lensku kon­unn­ar, sem sendi Jackson póst­inn, um að það væri ein­hver mögu­leiki á því að hún hefði getað smit­ast af ít­alska ferðamann­in­um í flug­vél­inni.

Um­fjöll­un Guar­di­an í heild

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert