16 af 25 Íslendingum í Ischgl smituðust

Ischgl býður upp á afar vinsæl skíðasvæði og er skemmtanahaldið …
Ischgl býður upp á afar vinsæl skíðasvæði og er skemmtanahaldið þar sagt líflegt. AFP

Í ítarlegri umfjöllun breska tímaritsins Guardian um mikinn fjölda kórónuveirusmita sem eiga rætur sínar að rekja til Austurríska skíðabæjarins Ischgl er farið yfir aðkomu Íslendinga að málinu. Í umfjölluninni er fullyrt að sextán af 25 Íslendingum sem dvöldu í þremur hópum í Ischgl hafi smitast af veirunni. Eins og mbl.is hefur áður greint frá eru sjö Íslend­ing­ar í hópi nærri 6.000 manna sem boðað hafa hóp­mál­sókn gegn stjórn­völd­um í Tíról, héraði Ischgl. 

Hóp­ur­inn sak­ar yf­ir­völd um að hafa vís­vit­andi haft hljótt um út­breiðslu kór­ónu­veirufar­ald­urs á skíðasvæðunum í í fe­brú­ar og mars, og þar með sett efna­hag svæðis­ins ofar heilsu gesta sinna.

Í umfjöllun Guardian er rætt við Bretann Charlie Jackson sem fór í skíðaferð til Ischgl á sama tíma og smit fór að breiðast þar út. 4. mars fékk hann póst frá íslenskri konu sem hafði dvalið ásamt fjölskyldu sinni á sama hóteli og Jackson. Þar greindi konan Jackson frá því að hún hefði greinst smituð af kórónuveirunni eftir að hún sneri aftur til Reykjavíkur. Konan bætti því við að hún vissi ekki hvort hún hefði verið smitandi í Ischgl og það væri mögulegt að hún hefði smitast á leið sinni heim til Íslands. Flugfélagið hennar greindi henni frá því að hennar hópur hefði flogið í sömu vél og smitaður maður sem hafði verið á skíðum á Ítalíu.

Konan hafði verið á ferðalagi með þremur hópum af íslenskum ferðamönnum, 25 manns alls, sem þekktu hvert annað og dvöldu á tveimur hótelum og í nokkrum íbúðum frá 22.-29. febrúar. Nokkur þeirra voru læknar svo hópurinn hafði fylgst náið með fréttum af heimsfaraldri kórónuveiru.

Tíról sagði Íslendingana líklega hafa smitast í vélinni

Eftir að einn íslensku ferðamannanna sýndi einkenni COVID-19 hinn 26. febrúar og annar fór að finna fyrir slappleika varð hópurinn var um sig. 16 af þessum 25 Íslendingum reyndust smitaðir af veirunni. 

Heilbrigðisyfirvöld hérlendis sendu þá skilaboð út til kollega sinna í Vín og að morgni 5. mars settu íslensk stjórnvöld Ischgl á lista yfir áhættusvæði og var bærinn þá kominn í flokk með Wuhan, þar sem veiran kom fyrst upp, og Íran. Samdægurs var neyðarfundur boðaður hjá kórónuveiruteymi Ischgl og voru tilfelli Íslendinganna rædd þar. 

Þegar lýðheilsufulltrúi Tíról sendi frá sér fréttatilkynningu síðar um daginn var hún þó ekki til þess fallin að setja svæðið í viðbragðsstöðu heldur til þess að róa fólk niður. Í yfirlýsingunni sagði framkvæmdastjóri heilbrigðismála í Ischgl að íslensku ferðamennirnir hefðu líklega smitast í flugvélinni frá München til Reykjavíkur. Viðbrögð svæðisins byggðust því á orðum íslensku konunnar, sem sendi Jackson póstinn, um að það væri einhver möguleiki á því að hún hefði getað smitast af ítalska ferðamanninum í flugvélinni.

Umfjöllun Guardian í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert