Tæknirisinn Facebook segist ætla að stöðva streymi fransks karlmanns með ólæknandi sjúkdóm sem hugðist sýna frá síðustu dögum ævi sinnar.
Alain Cocq, sem er 57 ára, ákvað í gærkvöldi að hætta notkun allra lyfja og hætta að neyta matar og drykkjar í því skyni að deyja innan nokkurra daga. Cocq hafði samband við Emmanuel Macron Frakklandsforseta fyrr í sumar og fór þess á leit að forsetinn endurskoðaði lög sem banna dánaraðstoð í Frakklandi. Forsetinn varð ekki við því.
Cocq býst við því að eiga nokkra daga eftir ólifaða. Hann hugðist streyma frá síðustu dögum ævinnar á Facebook. „Ég veit að ég mun finna fyrir meiri sársauka en nokkurn tímann áður, í um fimm til sjö daga. Ég er ekki að gera þetta fyrir neina gægjuþörf. Ég vil upplýsa fólk um eitthvað sem allir þekkja en enginn vill tala um: sársauka. Ég kýs að sýna sársauka minn. Grundvallarregla lýðræðisins er að fólk á að hafa val. Dauðinn á að vera lýðræðislegur,“ sagði Cocq um þá ákvörðun sína að streyma frá síðustu andartökum ævinnar.
Facebook sagði í tilkynningu fyrr í dag að það stríddi gegn reglum miðilsins að sýna frá sjálfsvígi.
„Jafnvel þó að við virðum þá ákvörðun að vilja vekja athygli á þessari erfiðu spurningu, eftir að hafa ráðfært okkur við sérfræðinga, höfum við gripið til ráðstafana til þess að koma í veg fyrir streymi frá reikningi Alain. Reglur okkar heimila ekki að sýna sjálfsvígstilraunir,“ segir í tilkynningunni.
Cocq hvatti fylgjendur sínar til þess að senda Facebook skilaboð og fara fram á að streymið yrði leyft. „Þetta er í ykkar höndum núna. Segið þeim hvað ykkur finnst um aðferðir þeirra til að takmarka tjáningarfrelsið,“ sagði Cocq í færslu á Facebook fyrr í dag.
Með streyminu vildi Cocq sýna sársaukann sem frönsk lög hafa valdið honum með því að banna dánaraðstoð. Hann segist vona að erfiðleikar hans síðustu daga ævinnar verði í minnum hafðir að honum látnum og leiði til framfara þegar kemur að heimildum Frakka til að óska eftir dánaraðstoð.