„Dauðinn á að vera lýðræðislegur“

Alain Cocq á heimili sínu í Dijon í austurhluta Frakklands.
Alain Cocq á heimili sínu í Dijon í austurhluta Frakklands. AFP

Alain Cocq, 57 ára fransk­ur karl­maður með ólækn­andi sjúk­dóm, ákvað í gær­kvöldi að hætta notk­un allra lyfja og hætta að neyta mat­ar og drykkj­ar í því skyni að deyja inn­an nokk­urra daga. Cocq hafði sam­band við Emm­anu­el Macron Frakk­lands­for­seta fyrr í sum­ar og fór þess á leit að for­set­inn end­ur­skoðaði lög sem banna dán­araðstoð í Frakklandi.

Cocq býst við því að eiga nokkra daga eft­ir ólifaða. Hann seg­ist ætla að streyma frá síðustu dög­um æv­inn­ar á Face­book. „Ég veit að ég mun finna fyr­ir meiri sárs­auka en nokk­urn tím­ann áður, í um fimm til sjö daga. Ég er ekki að gera þetta fyr­ir neina gægjuþörf. Ég vil upp­lýsa fólk um eitt­hvað sem all­ir þekkja en eng­inn vill tala um: sárs­auka. Ég kýs að sýna sárs­auka minn. Grund­vall­ar­regla lýðræðis­ins er að fólk á að hafa val. Dauðinn á að vera lýðræðis­leg­ur,“ seg­ir Cocq. 

AFP

Cocq skrifaði Frakk­lands­for­seta bréf 20. júlí síðastliðinn þar sem hann bað for­set­ann að leyfa sér að „deyja með reisn“ og lýsti óbæri­leg­um sárs­auka sín­um. Hann hvatti Macron til að end­ur­skoða lög­gjöf sem bann­ar dán­araðstoð. Í svari sínu til Cocqs sagði Macron að saga Cocqs hefði hreyft við sér. Hann gat þó ekki orðið við beiðni Cocqs um að lög­leiða dán­araðstoð. 

Cocq seg­ist hafa bú­ist við því svari sem hann fékk frá Macron, en þyki þó vænt um samúðina sem for­set­inn sýndi hon­um.  

„Í dag er ég full­ur þakk­læt­is og bú­inn að fá nóg. Ég tók þá ákvörðun að binda enda á líf mitt 26. júní og bað þá aðstoðarmann minn að slá inn bréfið sem ég sendi til for­set­ans. Þetta var hræðileg ákvörðun að taka, en ég get sagt þér það að mér hafði ekki liðið svona vel í lang­an tíma,“ seg­ir Cocq.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert