Mexíkóski eiturlyfjabaróninn Joaquin „Chapo“ Guzman hefur áfrýjað lífstíðardómi sem hann hlaut fyrir ári síðan í bandarískum dómstóli fyrir að hafa smyglað hundruðum tonna af fíkniefnum inn í landið.
„El Chapo“, eins og hann hefur verið kallaður, hefur verið látinn dúsa í einangrun í einu rammgirtasta fangelsi Bandaríkjanna í ríkinu Colorado.
Að sögn lögmanns „El Chapho“, Marc Fernich, fóru saksóknarar yfir strikið í réttarhöldum yfir honum og þess vegna verður málinu áfrýjað.
Hinn mexíkóski 62 ára fyrrverandi leiðtogi eiturlyfjahringsins Sinaloa var fundinn sekur í fyrra um glæpi sem höfðu staðið yfir í um aldarfjórðung. Meðal annars var hann dæmdur fyrir að hafa flutt inn hundruð tonna af kókaíni, heróíni, metamfetamíni og marijúana.
Annar lögmaður Guzman sagði við AFP að ógilda ætti upphaflega dóminn vegna þess að einn úr kviðdómnum sagði við Vice News að hann og fleiri hafi fengið upplýsingar um málið í gegnum fjölmiðla og samfélagsmiðla meðan á réttarhöldunum stóð, sem er bannað.