Meira en tugur manna sem mótmælti útgöngubanni var handtekinn í borginni Melbourne í Ástralíu. Nokkur hundruð mótmælendur hunsuðu sóttvarnareglur og tóku þátt þessum ólöglegu mótmælum sem beindust að viðbrögðum stjórnvalda vegna kórónuveirunnar.
Þó nokkrir hópar sem halda úti netsíðum með samsæriskenningum í tengslum við veiruna og útgöngubannið stóðu á bak við mótmælin. Þess var krafist að banninu lyki.
Hópur lögregluþjóna var á staðnum og handtók sautján manns á sama tíma og hópurinn hrópaði „frelsi“ og „gabb“ fyrir framan lögregluþjónana, sem reyndu ítrekað að sundra hópnum.
Tveir mótmælendur sáust lyfta handleggjum sínum með nasistakveðju og kölluðu „Heil Dan“. Líktu þeir Daniel Andrews, ríkisstjóra í Viktoríu, við Adolf Hitler.
Að minnsta kosti 160 manns voru sektaðir fyrir að brjóta lög um sóttvarnir.
Þó nokkrir sem voru á vettvangi sögðu AFP-fréttastofunni að þeir væru að mótmæla viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við faraldrinum, sem hefur orðið rúmlega 865 þúsund manns að bana víðs vegar um heiminn.
Yfir 26.200 tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst í Ástralíu og 748 manns hafa látist en um 25 milljónir búa í Ástralíu.