Vegna mikillar fjölgunar teita og ólöglegra rave-partía hefur ungt fólk í ensku borginni Leeds verið beðið að huga betur að sóttvörnum.
Sjö 10.000 punda sektir hafa verið afhentar forsprökkum slíkra samkoma í borginni sem fram fóru síðustu helgi, að sögn forseta borgarstjórnar.
The Guardian greinir frá.
Judith Blake, forseti borgarstjórnar í Leeds, segir að tilfellum þar sem ungt fólk greinist smitað með kórónuveiruna hafi fjölgað mjög og hvetur hún ungt fólk til að taka meiri ábyrgð og aðstoða við að sporna gegn útbreiðslu veirunnar.
Samkvæmt greiningu frá Public Health England eru tveir þriðju þeirra sem smitast hafa af veirunni þar í landi yngri en 40 ára.
Fimmtungur þeirra sem hafa smitast er eldri en 50 ára og aðeins 3% eru eldri en 80 ára en voru 28% í mars.
Borgarstjórnin í Leeds vinnur núna í nánu samstarfi við háskóla í borginni við að undirbúa komu háskólanema á næstu dögum. Til greina kemur að skima sérstaklega fyrir veirunni á meðal nemenda.