Franskur maður sprengdi hluta af húsi sínu í loft upp þegar hann reyndi að drepa flugu. Maðurinn, sem er á níræðisaldri, var í þann mund að fá sér kvöldverð þegar fluga sem suðaði í kring um hann byrjaði að fara í taugarnar á honum. BBC greinir frá.
Maðurinn greip í rafmagnsflugnaspaða sem er hannaður til að drepa flugur og byrjaði að slá til flugunnar. Það vildi þó ekki betur til en svo að gashylki á heimili hans lak á sama tíma. Snerting hylkisins og spaðans setti af stað sprengingu sem gjöreyðilagði eldhúsið og hluta af þaki húss mannsins.
Maðurinn slapp nánast ómeiddur frá þessum háskaleik en eitthvað brenndur á hendi. Örlög flugunnar eru þó ókunn. Maðurinn býr nú á tjaldsvæði á meðan fjölskylda hans sinnir viðgerðum á húsinu.