Atli Steinn Guðmundsson skrifar frá Ósló
Allar götur síðan í mars hafa sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum í Noregi, með tilskilin réttindi, setið undir stýri sjúkrabifreiða um allan Noreg til að draga úr álaginu á fastar áhafnir bifreiðanna í þeim stóraukna fjölda útkalla sem fylgt hefur faraldri kórónuveirunnar og er nú svo komið að útköll með sjálfboðaliða undir stýri eru orðin yfir eitt þúsund í borgunum Ósló, Bergen, Stavanger og Þrándheimi einum.
Á síðastnefnda staðnum hafa átta til tíu sjálfboðaliðar skipt sjúkrabifreiðaakstrinum á milli sín og ekið samtals 1.027 klukkustundir síðan í vor. „Rauða krossinum í Þrándheimi barst fyrirspurn frá St. Olavs-sjúkrahúsinu í mars um hvort við gætum útvegað ökumenn í sjálfboðavinnu,“ segir Marita Hoel Fossen, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Þrándheimi, í samtali við mbl.is.
Hún segir þetta hafa verið auðsótt mál, samningur um vinnuframlagið hafi legið fyrir skömmu síðar og svo hafi aksturinn hafist. „Fyrst ók okkar fólk sjö daga í viku, en þeim fækkaði svo niður í fimm í maí og svo gerðum við hlé hluta af júlí svo mannskapurinn fengi að hvíla sig,“ segir Fossen, en sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna allir önnur störf í ofanálag enda hefur aksturinn að mestu farið fram tímabilið klukkan 17 til 23.
„Þetta er búið að vera mikið vinnuálag á fáar manneskjur, þeir sem taka þátt þurfa að hafa lokið þeim námskeiðum sem krafist er til sjúkraflutninga og það eru þessi tíu í deildinni hjá okkur sem uppfylla þær kröfur,“ segir Fossen.
Þrátt fyrir mikla vinnu segir hún sjálfboðaliðana yfir sig ánægða með að fá að leggja lóð sín á vogarskálarnar og taka þátt í þeirri miklu samstöðu sem einkennandi hafi verið fyrir kórónuhrjáða norska þjóð síðan snemma í vor.
„Við erum mjög stolt af þeim, þau koma beint úr dagvinnu í að keyra sjúkrabíl langt fram á kvöld, mörg kvöld í viku, og eins hefur starfsfólk sjúkrahússins verið ákaflega þakklátt og ánægt með hvað samstarfið hefur létt því lífið,“ segir framkvæmdastjórinn.
Magdalene Langset, líffræðingur hjá Náttúrurannsóknastofnun Noregs, og Tom Natland Fagerhaug, verkfræðingur hjá ríkisolíufyrirtækinu Equinor, eru í hópi sjálfboðaliðanna sem hafa setið undir stýri sjúkrabifreiða á götum Þrándheims frá því þeirra vinnudegi lýkur og langt fram á kvöld mánuðum saman.
Þau kveðast í sjöunda himni yfir að geta létt starfsfólki sjúkrahússins lífið þótt vissulega hafi álagið verið mjög mikið á tímabili þegar þau voru við aksturinn sjö daga vikunnar. Nú aka þau þrjú kvöld í viku.
Langset og Natland höfðu réttindi til sjúkraflutninga fyrir, en þurftu að bæta við sig sérstöku sóttvarnanámskeiði áður en þau hófu aksturinn í vor. Mest hafa þau sinnt útköllum þar sem ekki er um bráðatilfelli að ræða, en á móti kemur að útköllin taka að jafnaði lengri tíma þegar áhöfn sjúkrabifreiðarinnar getur lokið málinu á vettvangi án þess að flytja þann sem sinnt er á sjúkrahúsið.
Sjálfboðaliðafyrirkomulag Rauða krossins er starfrækt í 39 norskum sveitarfélögum og þykir hafa gefið góða raun síðan skórinn tók að kreppa í veirumálum um miðjan mars. Sjálfir láta sjálfboðaliðarnir vel af, en auk þess að sýna samstöðu á krefjandi tímum í lýðheilsumálum öðlast þeir dýrmæta reynslu sem nýtist við aðra starfsemi Rauða krossins, hvort tveggja nú sem við áskoranir framtíðarinnar.